03. nóvember 2020
Viljayfirlýsing um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar
self.header_image.title

Birta lífeyrissjóður, ásamt öðrum lífeyrissjóðum landsins eru meðal þeirra sem standa að sameiginlegri viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, undirritaði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og aðilar sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði staðfestu þátttöku með undirritun sinni.

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Landssamtök lífeyrissjóða (LL), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og forsætisráðuneytið unnu að mótun yfirlýsingarinnar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.

Í yfirlýsingunni segir að fjármagnið sé mikilvægt hreyfiafl í mótun atvinnulífs og atvinnusköpunar í uppbyggingunni framundan. Ákvarðanir og markvissar aðgerðir nú muni hafa mikil áhrif á þróun á næstu árum og mikilvægt sé að þar sé sjálfbærni leiðarljós. Jafnframt skuli efla samkeppnishæfni til framtíðar.

Tekið verður tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér. Þar má nefna markmið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040, markmið Parísarsamkomulagsins um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030. Eftir atvikum er einnig litið til ESG/UFS, meginreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB), meginreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) og UN Global Compact.

Viljayfirlýsing2

Birta lífeyrissjóður vill vera til fyrirmyndar á sviði samfélagsábyrgðar og telur að sjálfbær þróun sé mikilvægur þáttur við fjárfestingar og stjórnarhætti. Birta hefur sett sér markmið tengd stefnumótun sjóðsins við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í ársskýrslu sjóðsins má sjá nánari upplýsingar um innleiðingu heimsmarkmiðanna.