Í ljósi fregna af gjaldþroti Fly Play vill Birta lífeyrissjóður koma eftirfarandi á framfæri við sjóðfélaga og aðra haghafa Birtu.
Starfsfólk og stjórn Birtu lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá stöðu sem upp er komin. Hugur okkar er hjá starfsfólki fyrirtækisins, viðskiptavinum þess og öðrum sem hlut eiga að máli.
Líkt og fram kemur í síðasta ársreikningi Birtu nam uppsafnað kostnaðarverð vegna fjárfestinga í hlutafé Fly Play samtals rúmum 1,7 milljörðum króna um síðustu áramót. Var eignin þá metin á tæpar 196 milljónir króna miðað við markaðsverð á þeim tíma.
Með öðrum orðum þá hefur sjóðurinn frá fyrstu fjárfestingu í Fly Play varið því sem nemur 0,25% af 696 milljarða eign sjóðsins eins og hún var metin um áramót. Stór hluti af tapi sjóðsins vegna Fly Play er þegar fram kominn og þess vegna hefur gjaldþrot félagsins hverfandi áhrif á afkomuna á þessu ári og getu sjóðsins til að greiða lífeyri. Eftirstandandi eign nam um áramót 0,02% af heildareignum Birtu og telst að fullu töpuð við þessar fréttir.
Sjóðurinn gerir sér grein fyrir því að blásið hefur um Fly Play og rekstraráhætta meiri en gengur og gerist í öðrum félögum sem sjóðurinn á hlutdeild í. Í því sambandi bendir sjóðurinn á að áhættan var takmörkuð við þá hlutdeild af heildareignum sem að framan greinir. Þrátt fyrir að Birta lífeyrissjóður hafi verið á meðal stærstu hluthafa flugfélagsins þá var fjárfesting sjóðsins í Fly Play lítið hlutfall af eignum hans.