Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu var gestapenni í fréttabréfi Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð.
Í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja segir orðrétt: „Með því að setja sér stefnu um samfélagslega ábyrgð stuðlar félag að heilbrigðara atvinnulífi og bættum samskiptum við hagsmunaaðila. Þannig treystir það einnig rekstrargrundvöll sinn með aukinni ásýnd trausts og trúverðugleika, bættri áhættuvitund, ánægðara starfsfólki og aukinni samkeppnishæfni.“ Allt eru þetta orð að sönnu en hvernig sýnum við þessa ábyrgð í verki?
Að sýna ábyrgð er orðasamband sem alla jafnan er notað þegar einstaklingar eða fyrirtæki lenda í vandræðum, þá þarf að sýna ábyrgð. Önnur merking er sú áskorun sem felst í því að sýna ábyrgð þegar vel gengur og halda sér frá vandræðum. Að sýna haghöfum ábyrgð og segja frá henni er einnig mikilvægt í flóknum hugtakaheimi samfélagslegrar ábyrgðar. Hugtakið sjálfbærni er til að mynda rétt um 30 ára gamalt og flestir telja sig skilja inntak þess. En skilja allir 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, svo ekki sé talað um hin 169 undirmarkmiðin? Sjálfbær þróun er bara 5 ára gamalt hugtak og hvernig metum við og sýnum sjálfbæra þróun ?
Til þess að fjárfestar geti sýnt ábyrgð þurfa þeir upplýsingar sem nýta má til að leggja mat á þróun yfir tíma. Fjárhagslegar upplýsingar skipta miklu máli og til viðbótar hefur verið kallað eftir ófjárhagslegum upplýsingum. Útgáfa UFS leiðbeininga Kauphallarinnar sem gjarnan eru tengdar við miðlun ófjárhagslegra upplýsinga er dæmi um slíka upplýsingagjöf. U-ið vísar í umhverfi, F í félagslega þætti og S-ið í góða stjórnarhætti. Gallinn við þessa tengingu er orðanotkunin, að þessar upplýsingar teljist ófjárhagslegar. Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru ekki ófjárhagsleg og mergur málsins er sá að margir sem bæta umhverfisstjórnun lækka kostnað samhliða því, sem teljast þá upplýsingar með fjárhagslegt gildi. Verðmætasköpun sem gerir fyrirtæki sjálfbærari, þróun í rétta átt.
Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þegar ávinningur verður af samþættingunni verður hann ekki bara félagslegur eða umhverfislegur heldur líka efnahagslegur. Það er því mikilvægt að þær UFS upplýsingar sem birtar eru nýtist við mat á sjálfbærri þróun. Að þegar fyrirtæki ná tökum á umhverfismálum verði það líka sett í samhengi við lækkun á kostnaði sem mun þá leiða til virðisauka. Áherslan á að vera á samþættingu en ekki stakstæðar og samhengislitlar upplýsingar. Annars kunna þær að missa marks, - upplýsingarnar eru ekki ætlaðar til friðþægingar heldur virðissköpunar.
Þar liggur sú áskorun sem felst í því að sýna samfélagslega ábyrgð. Að samþætta þessar upplýsingar svo sem flestir skilji og setja þær í hagrænt samhengi. Skiptir það máli að sýna minnkandi vatnsnotkun í höfðustöðvunum ef kostnaðurinn liggur í öðrum þáttum? Áherslan verður að vera á það sem skiptir máli en ekki bara upplýsingar í samræmi við staðlað matsblað. Fjöldi veikindadaga segir til að mynda mikið til um afköst og skilvirkni. Þegar starfsaðstæður eru slakar í langan tíma leiðir það jafnvel til starfsgetumissis eða örorku. Þegar kostnaður við örorku og minni afköst er lagður saman er óhagræðið augljóst.
Að sýna samfélagslega ábyrgð í samskiptum við hagsmunaaðila er mikil áskorun. Takist það munu fjárfestar og atvinnulífið ávinna sér traust og trúverðugleika sem byggir á heilbrigðu og sjálfbæru atvinnulífi sem stenst alþjóðlega samkeppni.
Meðfylgjandi mynd sýnir sjálfbæra þróun sem jafnvægi í sniðmengi á milli þessara þriggja stoða sem heimfæra mætti upp á sjávarútveg í dæmaskyni. Markmiðið er sjálfbær þróun og eflaust eru skiptar skoðanir um punktstöðuna ef marka má þjóðfélagsumræðuna. Flestir virðast vera sammála um að kvótakerfið tryggi sjálfbæra hagnýtingu fiskistofna en ágreiningurinn er um arðsemina og samfélagsleg áhrif. Að atvinnugreinin kunni að vera á gráu svæði þar sem sjónarmiðin togast á allt eftir því hver skrifar og talar. Mestu máli skiptir að ná jafnvægi í þessum þremur þáttum sem telst þá vera sjálfbær þróun.