24. apríl 2020
Afar kvikir vextir - Umfjöllun um vexti sjóðfélagalána

Í Viðskiptablaðinu þann 24. apríl, birtist grein þar sem Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs fjallar um vexti sjóðfélagalána og segir ekki tilefni til að breyta viðmiðunarvöxtum breytilegra óverðtryggðra sjóðfélagalána – sem bundin eru stýrivöxtum – þrátt fyrir meiri lækkanir nýverið og mun lægri vexti en hjá öðrum lánveitendum. Ekkert eitt viðmið sé óskeikult, og gagnsæi vaxtakjara sé mikilvægt, auk þess sem sérstakar aðstæður séu uppi.

self.header_image.title

Í grein Viðskiptablaðsins segir að Birta lífeyrissjóður lækkaði á dögunum breytilega óverðtryggða vexti sjóðfélagalána sinna í 2,85%, sem eru mun lægri vextir en hjá bjóðast hjá öllum öðrum lánveitendum hér á landi, og raunar lægri en sumir verðtryggðir breytilegir vextir. Ekki var þó um meðvitaða ákvörðun um þessa ákveðnu vaxtaprósentu að ræða, heldur hefur reglan síðustu þrjú ár hjá sjóðnum verið sú að breytilegir óverðtryggðir vextir eru einfaldlega stýrivextir Seðlabankans að viðbættu 1,1% álagi. Stýrivextir eru nú í sögulegu lágmarki í 1,75% eftir miklar lækkanir til að koma til móts við efnahagsáhrif kórónufaraldursins, og vextir Birtu eftir því.

Þótti hæfilegt viðmið á sínum tíma

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir hafa verið ómögulegt að sjá nýliðna atburði fyrir þegar ákvörðunin um regluna var tekin á sínum tíma. Stýrivextir hafi þótt hæfilegt viðmið þá, en deila megi um hvort þeir eigi jafn vel við nú, enda hefur reynt töluvert á samband stýrivaxta og markaðsvaxta síðustu misseri. „Þetta kemur sér auðvitað vel fyrir þá sem eru með þessa vexti, en þeir eru afar kvikir. Við veltum því stundum fyrir okkur hvernig sjóðfélagar muni bregðast við ef vextir hækka eins hratt og mikið og þeir hafa verið að lækka upp á síðkastið,“ segir Ólafur. Hann segir nokkuð ljóst að núverandi ástand muni ekki vara til langframa, enda afar sérstakar aðstæður uppi, en erfitt sé að segja til um með nokkurri nákvæmni hvernig vaxtaþróunin verði. „Það er spurning hvernig þetta verður til framtíðar. Vaxtaviðmiðin – bæði fyrir verðtryggð og óverðtryggð lán – eru í reglulegri endurskoðun, þar sem horft er til ýmissa þátta til að finna það viðmið sem endurspeglar hvað best ríkistryggða vexti". Ólafur tekur sem dæmi að frá því að íbúðabréf Íbúðalánasjóðs voru tekin upp sem grunnviðmið verðtryggðra vaxta sjóðsins, hafi velta þeirra dregist verulega saman. „Það má deila um það hvort flokkur með þetta litla veltu sé viðeigandi undirstaða fyrir útlánavexti sjóðsins.“

Markmiðið að kjörin séu óháð lánaformi

Hann segir markmið sjóðsins ávallt hafa verið að stilla vextina þannig af að árleg hlutfallstala kostnaðar verðtryggðra og óverðtryggðra vaxta verði svo gott sem sambærileg til lengri tíma litið. „Þannig að það sé ekki vaxtaþátturinn sem slíkur sem ræður því hvort fólk taki verðtryggt eða óverðtryggt, heldur það hvernig greiðsluferil fólk vilji sjá.“ Bendir hann á í því samhengi að mun meiri sveiflur séu á greiðslubyrði óverðtryggðra breytilega vaxta en annarra, sem geti komið sér vel á tímum sem þessum, en á móti geti róðurinn orðið þungur þegar allt leikur í lyndi í hagkerfinu og vextir hækka. Sjóðurinn starfi þó ekki í tómarúmi heldur á samkeppnismarkaði og verði að taka mið af því líka.

Vilja ekki stökkva til vegna tímabundinna aðstæðna

Ólafur segir óverðtryggðu breytilegu vextina vissulega lága í samanburði við samkeppnisaðila eins og staðan er í dag, og meginskylda sjóðsins sé að ávaxta peninga sjóðfélaga eins vel og hægt er, að teknu tilliti til áhættu. Hins vegar verði að horfa til þess að afar stutt sé síðan vextirnir lækkuðu. „Þetta er mjög stuttur tími sem þessi staða hefur verið uppi, og stjórn endurskoðar reglulega viðmiðið með tilliti til þess hvort vextirnir samræmast umboðsskyldu. Það er einfaldlega of stuttur tími liðinn til að fara að efast um hvort skyldan sé uppfyllt á þessu stigi,“ segir hann. Óverðtryggð sjóðfélagalán séu lítill hluti eignasafnsins, auk þess sem stutt sé síðan vextir lækkuðu, og óvíst hversu lengi þeir haldist svo lágir. „Það er markmið okkar að vaxtakjörin séu sem skiljanlegust og fyrirsjáanlegust. Við viljum ekki stökkva til eftir nokkra mánuði og breyta öllu vegna tímabundinna aðstæðna.“