Sjá nánar >
27. nóvember 2020
Birta endurskoðar vaxtaálag óverðtryggðra lána
self.header_image.title

Stjórn Birtu lífeyrissjóðs hefur tekið ákvörðun um hækkun vaxtaálags á óverðtryggðum lánum.

Óverðtryggðir vextir Birtu eru saman settir af Meginvöxtum Seðlabanka Íslands að viðbættu vaxtaálagi sem nú er 1,1%. Meginvextir Seðlabankans hafa lækkað skarpt undanfarin misseri og hafa vextir á sjóðfélagalánum Birtu fylgt þeirri lækkun fast á eftir. Vextir óverðtryggðra sjóðfélagalána hafa þannig lækkað um 3,5% á sl. 24 mánuðum, eða úr 5,6% niður í 2,1% og þar af um 2% á sl. 12 mánuðum. Vextir óverðtryggðra lána frá 1.12.2020 verða 1,85% vegna nýlegrar Meginvaxtalækkunar en vegna hækkunar vaxtaálags, sem nemur einu prósentustigi, og tekur gildi um áramót, munu vextir óverðtryggðra lána Birtu hækka í 2,85% en munu áfram fylgja Meginvöxtum Seðlabanka Íslands.

Stjórn byggir ákvörðun sýna um endurskoðun vaxtaálags einna helst á þeirri staðreynd að eignarflokkurinn hefur sýnt neikvæða raunávöxtun undanfarið og þykir stjórn því mikilvægt að grípa til þessa úrræðis svo ávöxtun sjóðfélaga verði viðunandi fyrir eignarflokkinn. Einnig er horft til vaxtakjara á sambærilegum lánum á markaði, sem eru töluvert hærri. Þykir stjórn því líklegt að sjóðfélagar með óverðtryggð lán sýni ákvörðuninni skilning enda hagsmunir allra sjóðfélaga hafðir að leiðarljósi.

Stjórn lokaði fyrir nýjar lánveitingar í eignarflokknum í lok ágúst sl. og hefur ekki tekið ákvörðun um opnun á frekari lánveitingar í eignaflokknum. Stjórn mun meta það áfram með hliðsjón af fjárfestingastefnu sjóðsins og mun tíminn leiða í ljós hvenær stjórn og eignastýring Birtu meta tímabært að opna að nýju fyrir umsóknir um óverðtryggð lán. Fyrst var horft til áramóta en ljóst er að ekki verður opnað fyrir umsóknir um óverðtryggð lán um áramót enda fjárfestingaþörf og vilji í eignarflokknum ekki fyrir hendi að svo stöddu.

Sjóðfélögum eru að berast bréf í pósti með tilkynningu um breytt vaxtaálag um þessar mundir.