30. júní 2019
Birta fær jafnlaunavottun, fyrst lífeyrissjóða
self.header_image.title

Stjórn og stjórnendur Birtu hefðu samkvæmt reglugerð getað dregið það til ársins 2022 að fá vottunina staðfesta en ákváðu að hrinda verkefninu í framkvæmd strax og fengu faggilta vottunarstofu, iCert ehf., til úttekta og vottunar á kerfinu.

Guðmundur Sigbergsson, gæða- og framkvæmdastjóri iCert vottunarstofu, kom færandi hendi í hús Birtu með innrammað skjal til staðfestingar merkum áfanga. Guðmundur sagði reynslu af úttektar og vottunarferlinu hafa verið afar notadrjúga og árangursríka fyrir bæði lífeyrissjóðinn og vottunarstofuna og bætti við:

„Úttektarteymið okkar staðfestir með ánægju að viðhorf Birtu lífeyrissjóðs til jafnlaunakerfis og markmiða þess eru til fyrirmyndar. Fyrir liggur að Birta þurfti ekki að ljúka við að innleiða jafnlaunakerfi og fá það vottað fyrr en í lok árs 2022. Lífeyrissjóðurinn sýnir hins vegar mikinn metnað með því að hefjast strax handa við að stuðla að, koma á og viðhalda launajafnrétti í rekstri sínum.
Þessi áfangi Birtu er stór og mikilvægur. Mælingar sem fyrirhugaðar eru hér eftir í starfsemi lífeyrissjóðsins eru til þess fallnar að koma þar á skilvirkri stjórnun jafnlaunamála.“

Jafnlaunavottun Ólafur og Hanna_2
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri ásamt Hönnu Þórunni Skúladóttur, forstöðumanni skrifstofu- og rekstrarsviðs og Guðmundur Sigbergsson, gæða- og framkvæmdastjóri iCert.

Vegferð og upphaf en ekki endastöð

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að jafnlaunavottunin sé í raun vottun á stjórnunarkerfi til að meta verðmæti starfa samkvæmt viðurkenndu verklagi og tryggja að greitt sé fyrir vinnuframlag í samræmi við jafnlaunastaðal. Of einfalt og yfirborðskennt sé að skilgreina jafnlaunavottun eingöngu sem staðfestingu á jafnrétti kynja til launa fyrir sambærileg störf.

„Kerfinu er ekkert síður ætlað að koma skipulagi á launastýringu í samræmi við jafnlaunastaðlinn ÍST 85. Við lítum á vottunina nú sem ákveðið upphaf en ekki endastöð. Þetta er þriggja ára þróunarferli verklags en ekki „stimpill“ eða yfirlýsing um að allt sé komið í lag og verði áfram.
Innbyggt í vottunina er aðhald og við munum í framhaldinu kynna hverjum starfsmanni matskerfið, forsendur þess og flokkun starfa.
Staðfesting um vottað jafnlaunakerfi Birtu kann að virðast „innanhússmál“ sjóðsins fyrst og fremst en vottunarinnar verður líka vart út á við, ekkert síður en inn á við. Jafnlaunavottun er nefnilega mikilvæg samfélagsyfirlýsing og um hana gildir í raun hið sama og um markmið Birtu varðandi kolefnisjafnaða og umhverfisvæna starfsemi sjóðsins.
Birta hefur samþykkt stefnuyfirlýsingu um umhverfisvænar fjárfestingar og auðvitað liggur beint við að gera strangar kröfur til eigin starfsemi fyrst og hafa hlutina í lagi heima fyrir áður en krafist er breytinga hjá öðrum.
Sama á við um jafnlaunavottunina. Við vildum tileinka okkur hana strax, vita um hvað hún snerist, skilja ferlið og þekkja gangverk kerfisins af eigin raun til að geta komið með ábendingar eða kröfur um jafnlaunamál gagnvart til dæmis félögum sem við eigum hlut í.
Með þessu lýkur í raun fyrsta áfanga ákveðinnar vegferðar. Við lítum svo á að við höfum frest til ársloka 2022 til að festa jafnlaunavottun í sessi og nýtum þann tíma til að tileinka okkur vottunina sem stjórnkerfi í eigin starfsemi.“

Jafnlaunamerkið og Birta

Birta lífeyrissjóður öðlast nú heimild til að nota jafnlaunamerki Jafnréttisstofu í starfsemi sinni.

Jafnlaunamerkið

Það er eftir Sæþór Örn Ásmundsson myndlistarmann og bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni árið 2014. Dómnefnd sagði um verðlaunatillöguna:

„Í merkinu má sjá mynd sem sýnir skífurit, stimpil, rúnir og brosandi andlit tveggja ólíkra einstaklinga. Í lögun minnir merkið á mynt eða pening og gefur þannig til kynna að einstaklingarnir sem þar sjást séu metnir jafnir að verðleikum. Merkið býður upp á alþjóðlega notkun, er einstakt og lýsandi fyrir verkefnið.“

Jafnlaunavottun_skyringamynd