„Ég kannaði að gamni mínu hvort einhverjir aðrir lífeyrissjóðir hefðu fengið vottað umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við ISO 14001-staðalinn en fann engan, hvorki hérlendis né erlendis. Ekkert skal fullyrt en mér er nær að halda að þið séuð frumkvöðlar að þessu leyti á heimsvísu!“ sagði Sigurður M. Harðarson úttektarstjóri hjá iCert, faggiltri vottunarstofu, þegar hann mætti á fund stjórnenda Birtu með innrammað vottunarskírteini sem tekur til reksturs skrifstofu og fjárfestinga lífeyrissjóðsins.
Aðdragandann má rekja til ársins 2019 og endahnúturinn var rekinn á ferlið nú á vordögum. Vottunarskírteinið var gefið út og áritað á sjálfan þjóðhátíðardaginn, 17. júní 2021, og gildir til 2024 eða svo lengi sem tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Því fer nefnilega fjarri að vottunin sé einfaldlega gefin út og vari án aðhalds. Útgefendur vottunarskírteinisins mæta árlega á vettvang og ganga úr skugga um að Birta starfi í samræmi við ISO 14001-staðalinn eins og til er stofnað.
Birta lífeyrissjóður er aðili að UNPRI, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar þar sem áskilið er að taka skuli mið af umhverfis- og félagslegum þáttum og góðum stjórnarháttum við fjárfestingarákvarðanir (UFS-viðmið).
Birta hefur einnig sett sér markmið tengd stefnumótun sjóðsins við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Ein þriggja stoða sjálfbærrar þróunar er umhyggja fyrir umhverfinu og umhverfisáhrif.
Umhverfisstjórnun er lykilatriði í nútímarekstri og samkvæmt henni setur Birta sér stefnu, mælanleg markmið og aðgerðaáætlun til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfsemi sinnar og jafnframt auka hin jákvæðu áhrif. Fyrir tveimur árum hófst vinna við að fá umhverfisvottun ISO 14001 og sneri bæði að rekstri sjóðsins og fjárfestingum hans. Forúttekt var gerð á umhverfisstjórnunarkerfinu sumarið 2020 en lokaúttektin frestaðist þar til í ár, þegar starfsemi Birtu færðist í fyrra horf eftir undanhald COVID.
Gagnvart rekstri Birtu er bókstaflega allt undir sem talist getur til umhverfisþátta: notkun raforku, heits og kalds vatns, pappírs, spilliefna, blaða, tímarita og umbúða. Sorp er flokkað og fastur úrgangur vigtaður tvisvar á ári og niðurstöður skráðar. Akstur starfsfólks til og frá vinnustað kemur við sögu og ferðalög starfsmanna á vegum sjóðsins. Þá stundar Birta skógrækt í Haukadal og tryggir þannig kolefnishlutlausa starfsemi sína næstu 35 árin.
„Við staðfestum ekki með umhverfisstjórnunarkerfinu hvernig Birta stendur gagnvart kolefnishlutleysi en vottum að útreikningar, aðferðafræði og utanumhald er í samræmi við kröfur ISO 14001-staðalsins. Reynslan sýnir að áhrifa þessa gætir ekki aðeins á sjálfum vinnustaðnum. Starfsfólk félaga og fyrirtækja, sem tileinka sér þessi vinnubrögð, fer að hugsa öðru vísi. Áhrifa breyttrar hugsunar fer líka að gæta á heimilum starfsfólksins og fjölskyldurnar breyta hegðun sinni umhverfinu í vil,“ segir Sigurður M. Harðarson.
Hvernig birtist vottunin gagnvart fjárfestingum Birtu lífeyrissjóðs? Því svöruðu nokkrir af stjórnendur sjóðsins sem tóku á móti Sigurði frá iCert með vottunarskjalið: Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri, Hanna Þórunn Skúladóttir, forstöðumaður skrifstofu- og rekstrarsviðs, Eva Jóhannesdóttir markaðsfulltrúi og Helga Dögg Yngvadóttir gæða- og skjalastjóri.
„Lög um ársreikninga kveða á um að Birta lífeyrissjóður birti upplýsingar um umhverfisþætti tengda starfseminni og í nánustu framtíð verður lögfest ES-tilskipun um að tekið skuli tillit til umhverfismála við fjárfestingar. Enginn afsláttur verður af því gefinn, hvorki af hálfu eftirlitsstofnana né almennings.
Við birtum ýmsar upplýsingar í þessum efnum í ársskýrslunni okkar 2020 og göngum þar á undan öðrum með góðu fordæmi. Krafan um upplýsingamiðlun varðandi umhverfismál og umhverfisáhrif verður sífellt ákveðnari og umfangsmeiri og þá hlýtur krafan jafnframt að vera sú að upplýsingarnar byggist á viðurkenndu matskerfi.
Starfsmenn eignastýringar Birtu meta nýjar fjárfestingar hérlendis út frá viðmiðum ISO 14001-staðalsins og þannig sendir sjóðurinn skilaboð um markmið sín og viðhorf. Við göngum eftir því að fá upplýsingar um umhverfismál frá félögum og fyrirtækjum sem við fjárfestum í eða gefa út skuldabréf sem við kaupum.
Við gerum fyrst kröfur til okkar sjálfra og svo til annarra í ljósi þekkingar okkar og reynslu. Við viljum hafa umhverfismálin í lagi hjá okkur til að hafa forsendur til að gera kröfur til annarra. Annars vegar þessa vegna lögðum við kapp á að fá umhverfisstjórnunarkerfið okkar vottað og viðurkennt en hins vegar vegna þess að þannig leggjum við okkar lóð á vogarskálar í heimsbaráttu gegn loftlagsbreytingum.“