Birta lífeyrissjóður færði Listasafni Einars Jónssonar á dögunum afar merkilega, bronssteypta brjóstmynd sem sjóðurinn átti í geymslu en ekki var vitað af hverjum væri fyrr en fyrir skemmstu. Á daginn kom að fyrirsæta Einars Jónssonar var fyrsta forsetafrú Íslands, Georgia Björnsson.
Listasafnið átti fyrir geymslum sínum sömu brjóstmynd í gifsi en ekki bronssteypta. Safnið hafði ekki upplýsingar um af hverjum myndin væri og var hún því skráð „óþekkt“ í bókum þess. Margeir Daníelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, upplýsti starfsmenn Birtu um að fyrirmyndin væri Georgia Björnsson og því fékk safnið bæði bronsmyndina og vitneskju um fyrirsætuna!
Birta lífeyrissjóður á nokkur listaverk sem voru á sínum tíma í eigu listasafns Sambands íslenskra samvinnufélaga. Samvinnulífeyrissjóðurinn eignaðist verk úr safninu eftir að Sambandinu var skipt upp, þar á meðal þessa tilteknu brjóstmynd sem merkt er með ártalinu 1941.
Samvinnulífeyrissjóðurinn sameinaðist lífeyrissjóðnum Lífiðn í ársbyrjun 2007 og til varð Stafir lífeyrissjóður. Stafir og Sameinaði lífeyrissjóðurinn sameinuðust svo í ársbyrjun 2017 og til varð Birta lífeyrissjóður. Þannig kemur það til að listaverk, sem áður voru í eigu Sambandsins, eru nú eign Birtu lífeyrissjóðs.
Starfsmenn Birtu tóku til í geymslum sjóðsins í vetur og veltu fyrir sér bronsmyndinni umræddu. Ákveðið var að gefa Listasafni Einars Jónssonar myndina og upplýsingar Margeirs Daníelssonar gáfu verkinu og gjöfinni í raun alveg nýja og óvænta vídd! Þarna var með öðrum orðum komin mynd eftir fyrsta íslenska myndhöggvarann af konu sem varð fyrsta forsetafrú Íslands árið 1944.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, og Jóna Guðrún Ólafsdóttir, starfsmaður sjóðsins, afhentu gjöfina. Sigríður Melrós Ólafsdóttir safnstjóri segir að gjöfin sé einstök og viðburður í starfseminni. Brjóstmyndin er til sýnis almenningi í safninu.
Þegar Birta hafði afhent myndina 14. desember sl. fór starfsfólk safnsins að rekja ýmsa sögulega þræði því í geymslu þess var gifsafsteypa af karlmanni, líka merkt ártalinu 1941, fyrirmyndin skráð „óþekkt“. Þegar betur var að gáð svipaði myndinni til Sveins Björnssonar forseta. Afkomendur fyrstu forsetahjónanna staðfestu síðan við safnið að brjóstmyndin væri af Sveini og að bronsafsteypur af báðum verkum væru til í fórum forsetaembættisins á Bessastöðum. Listasafnið hafði ekki vitneskju um það.
Á Fésbókarsíðu Listasafns Einars Jónssonar stendur eftirfarandi um tengsl Sveins Björnssonar og Einars Jónssonar:
Sveinn Björnsson var mikill velgjörðarmaður Einars, og kærleikar voru með þeim og vinátta. Sveinn var einn hvatamanna að því að safnið yrði stofnað og byggt. Hann talaði meðal annars fyrir safninu á Alþingi og hann og Georgia voru meðal þeirra fjölmörgu sem gáfu fé til byggingar safnsins. Þegar ákvörðun var tekin um framkvæmdina árið 1914 var áætlaður kostnaður þrjátíu þúsund krónur. Lagði Alþingi til tíu þúsund krónur en tuttugu þúsund söfnuðust meðal almennings. Hornsteinn var lagður að safninu árið 1916 og það opnað árið 1923.
Í endurminningum sínum segir Einar:
„Frá Sveini Björnssyni (síðar sendiherra), sem þá var heima, fékk ég skeyti þess efnis, að ég sá, að ég varð að koma heim viðvíkjandi verkum mínum og tilvonandi byggingu; ég trúði á Svein sem einskonar undramann, hans ráð og dáð höfðu alltaf reynst mér svo vel. Margra ára vinátta hafði kennt mér að þekkja þennan mann sem hið trausta og trygga bjarg. Hann og kona hans eru meðal þeirra sem ég stend í mikilli þakkarskuld við.“