29. maí 2019
Birta tekur þátt í stærstu fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða
self.header_image.title

Jarðvarmi slhf., félag í eigu Birtu og þrettán annarra íslenskra lífeyrissjóða, hefur nýtt forkaupsrétt sinn og keypt samtals 66,6% hlut í HS Orku fyrir 47 milljarða króna. Samkvæmt því er verðmæti fyrirtækisins metið á 70,5 milljarða króna.

Þetta er stærsta einstaka fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða til þessa.

Meðfjárfestendur Jarðvarma í viðskiptunum er breska sjóðastýringarfyrirtækið Ancala Partners og mun það eignast helmingshlut í HS Orku á móti Jarðvarma. Ancala Partners hefur sérfræðiþekkingu á sviði endurnýjanlegrar orku sem gerir félagið að ákjósanlegum meðeiganda.

Þá mun nýtt félag, Blávarmi slhf., kaupa 30% hlut í Bláa lóninu fyrir um 15 miljarða króna. Blávarmi er í eigu sömu lífeyrissjóða og eiga Jarðvarma.

Samlagshlutafélagið Jarðvarmi var stofnað árið 2011. Birta lífeyrissjóður á 8,58% hlut í því og er fjórði stærsti hluthafinn. Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringarsviðs Birtu lífeyrissjóðs, tók sæti í stjórn Jarðvarma á árinu 2017 en fyrir þann tíma hafði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, gegnt stjórnarformennsku í félaginu frá stofnun þess.

Soffía segir að HS Orka sé verulega áhugaverður fjárfestingakostur til lengri tíma litið og falli þannig vel að eignasafni lífeyrissjóða.

HS Orka