Birta lífeyrissjóður hefur samið við Klappir um innleiðingu á hugbúnaði til að fylgjast með UFS frammistöðu eignasafns sjóðsins.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu segir að samstarfið við Klappir sé liður í vegferð sem hófst fyrir tveimur árum þegar sjóðurinn setti sér umhverfistefnu og birti ársskýrslu í samræmi við alþjóðleg sjálfbærniviðmið (e. GRI). Löggjafinn hefur þegar lýst áformum sínum um að innleiða tvær ESB reglugerðir sem mun gera ríkari kröfu til lífeyrissjóða á þessu sviði. Annars vegar er það flokkunarreglugerðin (EU Taxanomy Regulations) sem ætlað er að samræma flokkun á atvinnustarfsemi eftir því hvort hún er umhverfissjálfbær eða ekki. Hún mun samræma skilning okkar á hugtakinu umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi og nýtast í samskiptum við okkar mótaðila í viðskiptum. Hins vegar er það reglur um upplýsingaskyldu (EU Disclosure Regulation) sem gerir ríkari kröfu um gagnsæi og birtingu upplýsinga á grundvelli ofangreinds flokkunarkerfis.
„Innleiðing á þessum reglugerðum felur í sér áskorun fyrir okkur enda stýrum við stóru eignasafni. Þessi upplýsingamiðlun þarf að vera skilvirk og áreiðanleg og þess vegna tökum við upp samstarf við Klappir“ segir Ólafur.
Hugbúnaður Klappa mun halda utan um mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda frá fyrirtækjum og miðla upplýsingum um frammistöðu þeirra inn í sérstakt viðmót sem Birta fær aðgang að.
„Þegar við upplýsum haghafa okkar um umhverfismál skiptir miklu máli að þær upplýsingar teljist staðlaðar og traustar“ segir Ólafur. „Við höfum sett okkur umhverfisstefnu sem hefur áhrif á fjárfestinga- og áhættustefnu og fengið umhverfisstjórnkerfið vottað. Við ætlum okkur að fylgja þessu eftir og standa við okkar stefnu. Hugbúnaðurinn mun nýtast okkur og við vonumst til þess að samstarfið skili árangri til framtíðar.
„Það er mikið ánægjuefni að fá Birtu í ört stækkandi hóp viðskiptavina Klappa. Hugbúnaður Klappa hentar vel til þess að fylgjast með UFS frammistöðu eignasafnsins. Það að Birta komi inn í viðskiptamannahóp Klappa og þar með verði virkur þáttakandi í stafrænu vistkerfi Klappa skiptir mjög miklu máli fyrir Klappir og samfélagið allt. Loftslagsmálin eru gríðarleg áskorun fyrir Ísland og heiminn allan – sterkir upplýsingatækni innviðir, traust gagnsöfn og skilvirk upplýsingagjöf til hagaðila eru ein af forsendum þess að við sameiginlega náum góðum árangri í baráttunni gegn hlýnun jarðar“. Segir Jón Ágúst, forstjóri Klappa.
Bæði Birta og Klappir leggja mikla áherslu á að vinna á grundvelli Heimsmarkmiðs sameinuðu þjóðanna nr. 17 (samvinna um markmiðin) því að með þéttri samvinnu allra þá náum við sem samfélag mun meiri árangri en ef við erum að vinna hvert fyrir sig. Ísland þarf á því að halda að við stöndum saman í að vinna okkur í gegnum þær miklu áskoranir sem bíða okkar í loftslagsmálum.
Með aukinni samvinnu fyrirtækja á Íslandi er það okkar von að við náum að standa við þau loforð sem að Ísland samþykkti með Parísarsamningnum um að draga úr losun um 55% á tímabilinu 2021-2030.
Stafrænt vistkerfi Klappa henta öllum fyrirtækjum og tengir í dag saman meira en 400 aðila á Íslandi; fyrirtæki, sveitarfélög, ríkisstofnanir , ráðuneyti, bæjarfélög og hafnir.
Það gleður okkur hjá Klöppum að sjá sameiginlegan árangur viðskiptavina okkar sem hafa nú náð 16% heildarsamdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda. Við hjá Klöppum erum því ákaflega ánægð að fá Birtu í hópinn.