Hópur starfsmanna Birtu lífeyrissjóðs og makar þeirra gróðursetti á dögunum 1.800 trjáplöntur á Haukadalsheiði í samræmi við þriggja ára samning við Skógræktina um gróðursetningu og skógrækt þar á þremur hekturum lands.
Í þetta sinn var plantað stafafuru en gert er ráð fyrir að gróðursetja alls 7.500 plöntur á samningstímanum: stafafuru, sitkagreni og alaskaösp. Skógræktin annast gróðursetninguna en starfsmenn sjóðsins vilja auðvitað taka þátt í ævintýrinu líka og geta stoltir fylgst með Birtuskóginum sínum vaxa og dafna í tímans rás.
Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, er tengiliður Birtu við verkefnið og var á vettvangi til að leiðbeina og aðstoða áhugasama gróðursetningargesti sína. Vel viðraði til útiveru og útivinnu, umhverfið magnað og fjallasýnin töfrandi.
Þarna var áður uppblásið land en fokið var heft með lúpínu. Í lúpínubreiðurnar höfðu Skógræktarmenn herfað rásir fyrir Birtufólk að gróðursetja í. Það gekk bæði fljótt og vel að stinga niður 1.800 plöntum og nú ríkir spenna í ranni Birtu að frétta af því í vor hvernig plönturnar komi undan vetri.
Samningur Birtu lífeyrissjóðs og Skógræktarinnar var undirritaður í Haukadal í september í fyrra. Hann er „grænt skref“ í starfsemi sjóðsins, eitt af mörgum en stórt og mikilvægt sem slíkt. Markmiðið er að kolefnisjafna starfsemi sjóðsins og stuðla um leið að því að draga úr koldíoxíði í andrúmslofti og binda jarðveg á gróðursnauðu svæði. Í samningnum er kveðið á um að kolefnisbinding og kolefnisforði í trjám, botngróðri og jarðvegi á Haukadalsheiði verði eign Birtu til ársins 2068.