04. nóvember 2022
Bréf Birtu í ÍLS (áður Íbúðalánasjóður)
self.header_image.title

Við lokun markaða þann 20. október sl., sama dag og fjármálaráðherra kynnti áform sín um að slíta Íbúðalánasjóði (ÍLS) með lagasetningu ef samkomulag við eigendur bréfanna um uppgreiðslu þeirra næðist ekki, var bókfært verð umræddra bréfa í samtryggingardeild Birtu samtals 46,8 milljarðar króna sem samsvarar tæplega 9% af heildareignum deildarinnar.

Um er að ræða þrjá skuldabréfaflokka ÍLS, þ.e. HFF24, HFF34 og HFF44. Hlutfallslega á sjóðurinn mest í lengsta flokknum, HFF44, sem er á gjalddaga á árinu 2044 og minnst í stysta flokknum, HFF24, sem er á gjalddaga á árinu 2024. Þar sem bókfært verð þessara bréfa í samtryggingu Birtu miðast við kaupkröfu bréfanna sem er litlu hærri en fastir vextir þeirra, þ.e. 3,75% verðtryggðir vextir, myndast ekki tap á bréfunum ef þau eru verðmetin á pari. Hins vegar þarf sjóðurinn að meta hversu líklegt það er að umrædd bréf verði greidd upp á pari á næsta ári og endurmeta þá núvirt verðmæti bréfanna með hliðsjón af því. Sem dæmi gætu verðtryggð ríkisskuldabréf, t.a.m markaðsflokkurinn RIKS 37 (lokagjalddagi á árinu 2037) verið til grundvallar í þessu endurmati en markaðskrafa þeirra í dag er um 1,8%. Ef við gefum okkur að bréfin verði greidd upp og sjóðurinn móttaki RIKS 37 á kröfunni 1,8% sem endurgjald yrði núvirt vaxtatap sjóðsins um 8 milljarðar króna ef talið er að 100% líkur séu á því að þetta raungerist með þessum hætti. Í tryggingafræðilegu endurmati sem miðast við verðtryggðu kröfuna 3,50% er um að ræða núvirðislækkun um 6 milljarða króna skv. sömu forsendum.

Tafla4.11.22

Hvað séreignardeildina varðar, bæði þá hefðbundnu og tilgreindu, hefur lækkun þessara þriggja flokka nú þegar reiknast inn í ávöxtun þeirra tveggja sparnaðarleiða sem eiga umrædd bréf, þ.e. blandaða leiðin og skuldabréfaleiðin, þar sem bókfært verðmæti þeirra tekur mið af markaðskröfu bréfanna en ekki kaupkröfu eins og á við um samtryggingardeildina. Í tilviki blönduðu leiðarinnar er um að ræða 1% lækkun á ávöxtun leiðarinnar sem samsvarar tæplega 90 milljónum króna. Í tilviki skuldabréfa leiðarinnar er um að ræða 1,4% lækkun á ávöxtun leiðarinnar sem samsvarar rúmlega 120 milljónum króna.

Tafla2.4.11.22