08. desember 2022
Breytt vaxtaviðmið til hagsbóta fyrir lántakendur
self.header_image.title

Stjórn Birtu hefur tekið ákvörðun um að breyta vaxtaviðmiði á verðtryggðum sjóðfélagalánum með breytilega vexti. Breytilegir vextir á umræddum lánum hafa fram til þessa tekið mið af þeim flokki íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs sem lengstan líftíma hefur hverju sinni og hefur það undanfarin ár verið HFF44 flokkur Íbúðalánasjóðs. Regluna er að finna í tölulið 2.1.2. í lánareglunum sjóðsins og tekur breytingin gildi frá og með 1. janúar nk. þegar nýtt vaxtatímabil lánanna hefst.

Þann 20. október sl. kynnti fjármála- og efnahagsráðherra nýja skýrslu starfshóps um stöðu Íbúðalánasjóðs og í kjölfarið voru skuldabréf sjóðsins, HFF bréfin, sett á svokallaðan athugunarlista í Kauphöllinni vegna þeirra óvissu sem ríkir um útgefandann og verðmyndun bréfanna. Strax eftir birtingu skýrslunnar þá hækkuðu vextir íbúðabréfa á markaði mikið og er staðan sú að verð- og vaxtamyndun bréfanna er alveg óvirk í dag. Í ljósi þessa taldi stjórn nauðsynlegt að gera breytingu á vaxtaviðmiði þannig að vextir breytilegu vaxtanna fylgi vöxtum á verðtryggðum ríkisbréfaflokki sem virk verðmyndun er á. Með óbreyttri vaxtareglu þá hefðu breytilegir verðtryggðir vextir Birtu þurft að hækka í 4,50% um næstu áramót.

Breytingin sem samþykkt var felst í því að í stað þess að viðmiðið séu skuldabréfalokkar Íbúðalánasjóðs, nú HFF44, verður það sá flokkur verðtryggðra ríkisbréfa sem lengstan líftíma hefur hverju sinni og er með virka verðmyndun og viðskiptavakt í Kauphöll, en sá flokkur er nú RIKS 37 0115. Ekki er gerð nein breyting á vaxtaálaginu og verður það áfram 0,70% (0,7 prósentustig) ofan á meðalávöxtunarkröfu flokksins eins og kemur fram í reglunni. Vextirnir breytast á 3ja mánaða fresti, í upphafi hvers ársfjórðungs.

Óbreytt vaxtaálag þýðir í raun að breytilegir vextir Birtu eru að lækka hlutfallslega því að vextir HFF bréfanna á markaði hafa verið hærri en á RIKS bréfunum undanfarin ár og hefur munurinn farið vaxandi síðustu 2-3 árin. RIKS37 flokkurinn er tiltölulega nýr flokkur í Kauphöll en hann var hann gefin út fyrr á þessu ári. Ef skoðaður er vaxtamunur milli HFF44 og RIKS30 sem er eldri verðtryggður ríkisbréfaflokkur, gefinn út árið 2011, þá var meðalvaxtamunur flokkanna 0,25% (25 prósentustig) á tímabilinu 1. janúar 2017 til 20. október 2022 og 0,39% (39 prósentustig) á tímabilinu 1. janúar 2022 til 20. október 2022.