05. september 2018
Enn beðið eftir því að ráðuneyti staðfesti hálfan lífeyri
self.header_image.title
Hálfur lífeyrir

„Það er rétt að gert var ráð fyrir að greiðsla hálfs lífeyris gæti hafist 1. september 2018 en við getum enn ekki tekið við umsóknum frá sjóðfélögum þar að lútandi og óvíst hvenær það gerist.

Þetta er eina svarið sem ég get gefið svo lengi sem lífeyrissjóðirnir bíða eftir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðanna vegna heimilda í lögum um almannatryggingar um hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun og hálfan lífeyri frá lífeyrissjóðum,“ segir Sigþrúður Jónasdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs Birtu lífeyrissjóðs, þegar grennslast var fyrir um hvað liði framkvæmd lagaákvæðis um hálfan lífeyri.

Staðfesting ráðuneytis forsenda þess að breytingin taki gildi

Heimild um hálfan lífeyri var samþykkt með breytingu á almannatryggingalögunum á Alþingi 13. október 2016. Reyndar var gert ráð fyrir því að frá og með 1. janúar 2018 yrði mögulegt að taka 50% ellilífeyri hjá Tryggingastofnun á móti 50% lífeyri frá lífeyrissjóðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Reglugerð vantaði um útfærslu lagaákvæðisins og hún var ekki birt fyrr en milli jóla og nýárs, tveimur sólarhringum fyrir gildistöku þess! Í lífeyrissjóðakerfinu töldu menn einsýnt að breyta þyrfti samþykktum lífeyrissjóða og það var gert. Birta lífeyrissjóður breytti sínum samþykktum á ársfundi sínum 2. maí 2018 og þar er skýrt kveðið á um að þær öðlist gildi „fyrsta dag næsta mánaðar eftir að staðfesting fjármála- og efnahagsráðuneytisins liggur fyrir.“ Þó skuli breytingar varðandi hálfan lífeyri ekki öðlast gildi fyrr en 1. september 2018.

Ráðuneytið hefur sem sagt ekki staðfest breyttar samþykktir Birtu. Fyrr en það gerist kemur breytingin ekki til framkvæmda hjá sjóðnum. Hliðstæð staða er uppi hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum.

Þegar staðfesting ráðuneytisins liggur fyrir verður það að sjálfsögðu kynnt sjóðfélögum hér á vef Birtu og víðar, þar sem færi gefast.

„Dæmalaust klúður“

Ætla má að eitt af forgangsmálum Alþingis á haustþingi verði að breyta almannatryggingalögunum í ljósi ábendinga og hvassrar gagnrýni sem ákvæði um hálfan lífeyri og hugmyndir um útfærslu þess sæta. Þannig var eftirfarandi haft eftir Þorbirni Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Birtu lífeyrissjóðs og Landssamtaka lífeyrissjóða, á vefnum Lífeyrismál.is 28. maí 2018:

„Hálfur lífeyrir er jákvætt mál sem lífeyrissjóðirnir sjálfir hefðu átt að hrinda í framkvæmd og standa vel að en nú horfum við á afleiðingar lagabreytingar og útfærslu í opinberri stjórnsýslu sem flokkast satt best að segja sem alveg dæmalaust klúður.

Útfærslan er þannig að breytingin gagnast fyrst og fremst fólki með háar tekjur, enda er hún án samráðs við Landssamtök lífeyrissjóða sem hafa á sínum snærum sérfræðinga og þekkingu á málum. Okkur var haldið utan við atburðarásina í aðdraganda breytingarinnar.

Dæmi um gott mál sem klúðrað var en nú er ætlunin að breyta lögum og framkvæmdinni til batnaðar.“

Tekjur hafa ekki áhrif á greiðslur hálfs lífeyris

Í lögum um almannatryggingar frá 2016 er kveðið á um skilyrði þess að fá greiddan hálfan lífeyri:

  • Sjóðfélagi þarf að hafa náð 65 ára aldri.
  • Samanlögð réttindi frá öllum lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun skulu að lágmarki vera jöfn fullum ellilífeyri hjá TR.
  • Allir skyldubundnir lífeyrissjóðir sem sjóðfélagi á rétt í, innlendir sem erlendir, skulu samþykkja að hann taki hálfan lífeyri.
  • Greiðslur úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun hefjist samtímis.

Þá vekur sérstaka athygli að tekjur hafa ekki áhrif á greiðslur hálfs lífeyris og því þarf ekki að skila inn tekjuáætlun. Þetta gildir um allar skattskyldar tekjur, svo sem atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur.

Sjá spurningar og svör um hálfan lífeyri á vef Tryggingastofnunar