11. júlí 2019
Of fáir nýta sér séreignarsparnað
self.header_image.title

Ólafur Sigurðsson framkvæmdarstjóri Birtu lífeyrissjóðs sagði í viðtali við Fréttablaðið að of fáir eru að nýta séreignarsparnað. Frá árinu 2009 hefur hlutfallið verið um 60 prósent launþega. Einungis 20 prósent þeirra sem greiða í séreignarsparnað nýta heimild til að greiða af húsnæðisláni eða safna fyrir útborgun. Hann slær þann varnagla að mögulega hafi fjöldi erlends vinnuafls áhrif á hlutfall þeirra sem greiða í séreignarsparnað.

„Það vekur sérstaka athygli hve fáir nýta sér heimild til að greiða séreignarsparnað inn á húsnæðislán. Það er mikil kjarabót því launþegar fá viðbótarframlag frá vinnuveitanda og sparnaðurinn fer skattfrjálst inn á höfuðstól lánsins. Það má því líta á úrræðið sem launahækkun,“ segir Ólafur í grein Fréttablaðsins. Greiddur er skattur af lífeyrissparnaði við útgreiðslu.

Ólafur

Séreignarsparnaður er viðbótarlífeyrissparnaður og séreign viðkomandi. Launþegar leggja fyrir tvö til fjögur prósent af launum sínum og fá tveggja prósenta viðbótarframlag frá vinnuveitanda.

Í greininni segir að samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra nýta nú um 30 þúsund manns heimild til að greiða inn á húsnæðislán eða safna fyrir útborgun með séreignarsparnaði. Þar af eru um 23 til 26 þúsund einstaklingar sem nýta leiðina til að greiða inn á húsnæðislán en hinir eru að safna fyrir útborgun til íbúðarkaupa. Miðað við það nýta einungis um 15 prósent fólks á vinnumarkaði þessa leið.

Ólafur segir að um 120 þúsund einstaklingar greiði í séreign. Um 20 prósent þeirra nýta heimild til að greiða inn á fasteignalán en miðað við það hefur hlutfallið verið tæplega 50 prósent þegar best lét. Samkvæmt greinargerð með lagafrumvarpi sem á að framlengja úrræðið til ársins 2021 hafa Íslendingar nýtt 56 milljarða af séreignarsparnaði sínum til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána sinna frá árinu 2014.

Fram kom í skýrslu forsætisráðuneytisins um höfuðstólslækkun húsnæðislána sem birt var árið 2013 að tekjur þeirra sem spara í séreignarlífeyrissparnaði væru mun hærri en hinna sem gerðu það ekki. „Tæplega 60 prósent þeirra sem ekki spara eru einhleypir meðan hlutfall einhleypra fasteignaeigenda í hópi þeirra sem spara er 30 prósent,“ segir í skýrslunni.

Ríkisstjórnin ákvað að framlengja heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði á húsnæðislán til ársins 2021. Ólafur bendir á að þeir sem vilja nýta úrræðið áfram verði sjálfir að sækja um það. „Lífeyrissjóðum er ekki heimilt að gera það fyrir sjóðfélaga,“ segir hann.

Nánari upplýsingar um framlengingu ráðstöfunar á séreignarsparnaði má finna á heimasíðu ríkisskattstjóra.

Grein Fréttablaðsins má finna í heild sinni hér.