Nýjar fjárfestingastefnur fyrir Birtu lífeyrissjóð vegna ársins 2020 voru staðfestar af stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóra þann 28. nóvember sl. Einungis lítilsháttar breytingar voru gerðar á milli ára. Um er að ræða stefnur samtryggingardeildar, deildar um tilgreinda séreign og séreignadeildar. Í grunninn eru stefnurnar hugsaðar til langs tíma en engu að síður eru þær endurskoðaðar árlega og eignaflokkum þá hnikað til með tilliti til breytinga í umhverfi sjóðsins og vikmörk ýmist þrengd eða víkkuð.
Helstu breytingar í fjárfestingarstefnu samtryggingardeildarinnar fela í sér lækkun á hlutfalli skuldabréfa með ábyrgð ríkissjóðs úr 24% í 20% sem og lækkun á hlutfalli skuldabréfa lánastofnana úr 4% í 3,5%. Fasteignaveðtryggð skuldabréf voru hækkuð úr 15% í 18% en undir þennan eignaflokk falla bæði sjóðfélagalán og bein útlán til lögaðila. Hlutfallið 18% endurspeglar að mestu leyti raunstöðu sjóðsins en Birta gaf út rúmlega 1.100 milljónir á mánuði á síðasta ári í nýjum sjóðfélagalánum að teknu tilliti til uppgreiðslna. Þá var hlutfall innlendra hlutabréfa hækkað úr 11% í 12%. Hlutfall erlendra hlutabréfa var hins vegar lækkað úr 26% í 24,5% en á móti var eignaflokknum „erlend skuldabréf“ bætt við fjárfestingarstefnuna og markmið hans sett á 2%. Um er að ræða skráð erlend skuldabréf sem að öllu jöfnu verða keypt í gegnum verðbréfasjóði er falla undir UCITS-tilskipunina í evrópskri löggjöf. Ný stefna gerir ráð fyrir að vægi erlendra verðbréfa verði aukið í 35% á árinu en stefnan frá fyrra ári gerði ráð fyrir 34,5%. Staða erlendra eigna sjóðsins var 32% um áramótin og því jafngildir ný fjárfestingarstefna aukningu í erlendum eignum á árinu 2020 um 3 prósentustig.
Fjárfestingastefna tilgreindu séreignarinnar er óbreytt á milli ára.
Á fjárfestingarstefnum séreignadeildarinnar voru einhverjar breytingar, þó mismunandi eftir sparnaðarleiðum. Innlánsleiðin var með óbreytta stefnu á milli ára. Í Skuldabréfaleiðinni var hlutfall innlána og fasteignaveðtryggðra skuldabréfa lækkað um 1 prósentustig í hvorum eignaflokki um sig. Á móti var hlutfall fyrirtækjaskuldabréfa hækkað um 2 prósentustig. Í Blönduðu leiðinni var fjárfestingarstefna erlendra hlutabréfa lækkuð úr 43% í 35% og á móti var stefna erlendra skuldabréfa sett í 8%. Þá var vægi innlána, skuldabréfa með ábyrgð ríkissjóðs og fasteignaveðtryggðra skuldabréfa lækkað um 1 prósentustig á hverjum eignaflokki fyrir sig. Á móti hækkaði vægi fyrirtækjaskuldabréfa úr 6% í 9%. Þá var markmiði um erlendar eignir Blönduðu leiðarinnar haldið óbreyttu í 45% á milli ára.