16. júní 2021
Gjörbreytt lífeyriskerfi á næstu áratugum

- ný og áhugaverð úttekt Talnakönnunar fyrir Birtu lífeyrissjóð

self.header_image.title

Lífeyriskerfi landsmanna gjörbreytist á næstu 50 árum, lífeyrissjóðir stækka og vægi þeirra þar með. Almannatryggingar minnka að sama skapi og hlutur þeirra í eftirlaunum dregst saman jafnt og þétt.

Þannig dró Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur upp heildarmyndina af þróun mála næstu hálfa öld í fyrirlestri sínum á Grandhóteli í gær, þar sem hann fjallaði um helstu niðurstöður könnunar sem fyrirtæki hans, Talnakönnun, gerði um tryggingavernd sjóðfélaga Birtu lífeyrissjóðs til framtíðar. Þar er horft til nægjanleika lífeyris, áhrifa séreignarsparnaðar, samspil við almannatryggingakerfið og breytingar á grunnforsendum lífeyris.

Framtíðin

Aldraðir borga

Benedikt og aðrir sérfræðingar Talnakönnunar hafa unnið að verkefninu frá því fyrir áramót og skilað Birtu lífeyrissjóði umfangsmikilli skýrslu sem stjórn sjóðsins mun fjalla fljótlega um í sínum ranni og birta síðan í framhaldinu.

Tölulegar staðreyndir, án ályktana

Nálgun í úttektinni er á ýmsan hátt einstök og Benedikt lét þess getið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að verkefnið hefði verið „óskaplega spennandi og ánægjulegt“. Margt hefði komið sér þar á óvart. Hann kvaðst hafa unnið með tölulegar staðreyndir og gögn en forðast að hafa skoðanir eða draga ályktanir umfram það sem niðurstöðurnar sýndu í sjálfu sér augljóslega fram á. Annarra væri að leggja út af því sem hér væri á borð borið og myndi vonandi kalla á umræður í samfélaginu.

Í úttektinni eru til að mynda miklar og áhugaverðar upplýsingar um lýðfræðilegar breytingar í samfélaginu, tekjur og kaupmátt.

  • Þjóðin eldist og lífeyrir þarf að ná yfir fleiri ár á æviskeiðinu en áður.
  • Kaupmáttur heildartekna Íslendinga hefur aukist á 25 árum, mest hjá konum.
  • Kaupmáttur karla hefur í heild aukist á 25 árum en ekki í yngstu hópunum.
  • Kaupmáttur eftirlauna hefur aukist mikið.
  • Frjáls sparnaður eykst og hrein eign fólks á eftirlaunaaldri eykst sömuleiðis.

Hrein eign fólks eykst til eftirlaunaaldurs og jafnvel eftir það líka. Fólk sparar alla ævi, líka af eftirlaunum. Skilaboð Benedikts til eftirlaunafólks er að það eigi að gera betur við sjálft sig á efri árum frekar en að halda áfram að spara!

Mynd frá fundi Benedikts1

Lífeyrissjóðir halda áfram að stækka fram yfir miðja öldina

Niðurstöður Benedikts/Talnakönnunar eru í stórum dráttum meðal annars eftirfarandi:

  • Íslenska lífeyriskerfið ER í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði.
  • Ávinnsla réttinda í lífeyrissjóðum hefur aukist og sú þróun heldur áfram.
  • Íslendingar eiga nú að jafnaði jafnmörg ár ólifuð 74 ára og þeir sem voru sjötugir fyrir hálfri öld. Eftir hálfa öld má gera ráð fyrir að 78 ára fólk eigi jafnmörg ólifuð ár og þeir sem sjötugir voru 1970.
  • Réttindi til lífeyris í lífeyrissjóðum hafa ekki náð viðmiðun um nægjanlegan lífeyri nema að viðbættum almannatryggingum.
  • Kaupmáttur eftirlauna mun aukast mikið og eftirlaun verða í mörgum tilvikum hærri eftir 50 ár en laun á vinnumarkaði eru nú.
  • Fengju allir fullan lífeyri frá almannatryggingum væru útgjöld ríkisins 80-100 milljörðum króna meiri á ári en þau eru nú.
  • Lífeyrisréttindi þeirra sem nú eru að koma á vinnumarkað svara til 70-100% meðallauna þegar lífeyrir almannatrygginga er meðtalinn.
  • Kostnaður ríkisins vegna ellilífeyris almannatrygginga minnkar mikið en greiðslur úr lífeyrissjóðum aukast.
  • Hlutur eftirlaunafólk í skattgreiðslum verður fljótlega álíka og hlutfall þeirra af fólksfjölda þegar líður á öldina.
  • Tekjur kvenna hafa að undanförnu aukist mun meira en tekjur karla.
  • Tekjur yngra fólks hafa aukist hægar en tekjur þeirra eldri á vinnumarkaði.
  • Öryrkjum mun fjölga hlutfallslega tímabundið vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.
  • Lífeyrissjóðir halda áfram að stækka fram yfir miðja 21. öld.

Fundarglærur má finna hér

Mynd frá fundi Benedikts2