„Meginástæða þess að tryggingafræðileg staða Birtu lífeyrissjóðs batnaði í fyrra er gríðarlega góð ávöxtun eigna sjóðsins á árinu 2019. Eignirnar jukust um 9,9% frá fyrra ári,“ sagði Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur á ársfundi Birtu sem haldinn var mánudaginn 15. júní sl. Hann vísaði til þess að tryggingafræðileg staða sjóðsins var -3,8% í lok árs 2018 en -1,8% í lok árs 2019 og bætti því við að áfallin staða hefði í raun batnað enn meira en tölurnar gæfu til kynna því nýjar lífslíkur væru komnar til sögu í reikniforsendum tryggingastærðfræðinga. Enn minna bil væri milli eigna og skuldbindinga nú ef eldri viðmið útreikninga hefðu gilt.
„Raunávöxtun samtryggingardeildar Birtu var í heildina mjög góð á árinu 2019 eða 11,2% sem svarar til 14,2 nafnávöxtunar. Af einstökum eignaflokkum báru hlutabréfin af. Erlend hlutabréf báru 26,5% raunávöxtun og innlend hlutabréf 25,4% raunávöxtun,“ sagði Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringasviðs Birtu, á ársfundinum.
Fram kom hjá henni að eignaflokkurinn fasteignaveðtryggð skuldabréf hefði aukist verulega í milljónum króna talið frá árinu 2018 eða sem samsvarar um 15.000 milljónum kr. að meðtalinni ávöxtun. Þá jókst hlutfall innlendra og erlendra hlutabréfa sömuleiðis í eignasafni Birtu. Samanlögð nettókaup hlutabréfa í þeim eignaflokkunum báðum námu um 3,6 milljörðum króna á árinu 2019. Ávöxtun hlutabréfanna skilaði hins vegar Birtu um 38 milljörðum króna.
Þá kom einnig fram í máli Soffíu að ávöxtun framan af ári 2020 hefði verið ágæt hérlendis og erlendis þrátt fyrir miklar sveiflur á mörkuðum. Þannig var raunávöxtun samtryggingardeildar 2,9% fyrstu fjóra mánuði ársins, innlánsleiðar 0,4%, skuldabréfaleiðar 4,2%, blandaðrar leiðar 2,9% og tilgreindrar séreignar 1,1%.
Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringasviðs.
Soffía fjallaði líka um raunávöxtun séreignarleiða Birtu á árinu 2019:
Birta lífeyrissjóður skilgreinir fjárfestingar sínar eftir sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og getur gert grein fyrir því hvernig þær stuðla að sjálfbærri þróun. Soffía tók sem dæmi að starfsemi Marels stuðlaði að betri matvælaframleiðslu og auknum gæðum matvæla, sem félli vel að markmiðum nr. 2 (ekkert hungur). Starfsemi Össurar félli vel að markmiði nr. 3 (heilsa og vellíðan).