06. febrúar 2019
Hagrænir innviðir eru áhugaverður fjárfestingakostur lífeyrissjóða
self.header_image.title

„Lífeyrissjóðir geta létt undir með ríki og sveitarfélögum við uppbyggingu innviða samfélagsins og að mörgu leyti samræmast slík verkefni vel kröfum um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar sjóðanna,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Fjallað var um innviðafjárfestingar á fundi í Kviku banka hf. fyrir stuttu og þar hafði Ólafur framsögu sem formaður nefndar Landssamtaka lífeyrissjóða um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða.

„Erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða eru nauðsynlegar til að dreifa áhættu frekar en eiga allt undir íslenska hagkerfinu. Hins vegar eru skuldbindingar sjóðanna í íslenskum krónum til langs tíma og þeir hafa bæði mikla getu til fjárfestinga. Skynsamlegt er því að fjárfesta líka verulega áfram hér innanlands og fjölga mismunandi kostum í þeim efnum.

Ólafur

Samtök iðnaðarins áætla uppsafnaða viðhaldsþörf tilgreindra innviða upp á 372 milljarða króna til að koma þeim í viðunandi ástand. Þar er viðhaldsþörf fráveitukerfa landsmanna metin á 50 til 80 milljarða króna. Ég nefni fráveitukerfi sérstaklega af því fjárfesting í þeim getur stuðlað að bættu umhverfi, sem aftur fellur vel að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar fjárfestingar og ekki síður að markmiðum lífeyrissjóða um jákvæð samfélagsáhrif fjárfestinga. Það gæti verið álitlegt í mörgum skilningi að lífeyrissjóðir kæmu hér að málum, svo dæmi sé tekið.“

Lífeyrissjóðir þurfa að ávaxta sitt pund til að eignir þeirra standi undir skuldbindingum gagnvart sjóðfélögum til lengri tíma. Getur fjárfesting í innviðum á borð við fráveitukerfi einhvern tíma talist nægilega arðsöm fyrir lífeyrissjóði?

„Þessu er ekki hægt að svara einhlítt á hvorn veginn sem er, kanna þarf hverja fjárfestingu út af fyrir sig til að meta heildarmyndina. Vissulega gilda stundum strangari reglur um arðsemi fjárfestinga í innviðum en í öðrum verkefnum.

Það kann einmitt að vera kostur að sett séu efri mörk arðsemi, enda væri þá tapsáhætta lífeyrissjóða jafnframt minni en ella. Aðkoma lífeyrissjóða getur verið á fleiri en einn veg, allt eftir stöðu þeirra, eðli fjárfestinga og fjárfestingarstefnu. Sumir sjóðir horfa til skuldabréfakaupa en aðrir kunna að hafa meiri áhuga á að leggja hlutafé í verkefnið.“

– Er tímabært að setja aukinn kraft í innviðafjárfestingar hérlendis, hvernig svo sem að þeim væri staðið?

„Já, viðhaldsþörfin er í það minnsta afar brýn og svo bendir margt til þess að hægja muni á hagvexti hér á næstu misserum. Þá myndast „slaki“ í hagkerfinu og þar með svigrúm til innviðauppbyggingar. Undirbúningur verkefna af þessu tagi tekur langan tíma og því skynsamlegt að hraða honum frekar en hitt til að hægt sé að hefja sjálfar framkvæmdirnar ef hagkerfið okkar verður fyrir skakkaföllum.“