Stjórn og varastjórn Birtu að loknum ársfundi 2020. Frá vinstri: Davíð Hafsteinsson, Pálmar Óli Magnússon, Guðrún Jónsdóttir, Hrönn Jónsdóttir, Hilmar Harðarson, Bára Laxdal Halldórsdóttir, Garðar A. Garðarsson, Þóra Eggertsdóttir og Jón Kjartan Kristinsson. Fjarverandi voru Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir í aðalstjórn og varastjórnarmennirnir Guðbjörg Guðmundsdóttir og Bolli Árnason.
Hrönn Jónsdóttir, margmiðlunarhönnuður og prentsmiður hjá Marel hf., er nýr formaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs. Pálmar Óli Magnússon, forstjóri þjónustufyrirtækisins Daga hf. er nýr varaformaður. Þau voru bæði kjörin í aðalstjórn Birtu 2018, hún fulltrúi launamanna en hann tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins (SA).
Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Birtu á Grandhóteli í gærkvöld. Nýir stjórnarmenn eru Jón Kjartan Kristinsson af hálfu launamanna og Þóra Eggertsdóttir tilnefnd af SA.
Fyrir í stjórn voru Hrönn Jónsdóttir, Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir og Hilmar Harðarson, fulltrúar launamanna, og Garðar A. Garðarsson og Bára Laxdal Halldórsdóttir til vara. Fyrir í stjórn voru af hálfu SA Guðrún Jónsdóttir, Davíð Hafsteinsson og Pálmar Óli Magnússon og Guðbjörg Guðmundsdóttir og Bolli Árnason til vara.
Úr stjórn Birtu fóru Ingibjörg Ólafsdóttir og Jakob Tryggvason, bæði voru fyrst kjörin í aðalstjórn Stafa lífeyrissjóðs 2012 og hafa setið í stjórn Birtu frá upphafi. Hvorugt var kjörgengt til áframhaldandi stjórnarsetu vegna ákvæðis í samþykktum sjóðsins um að ekki megi sitja lengur en átta ár samfellt í stjórn. Ingibjörg var formaður og Jakob varaformaður fráfarandi stjórnar. Þau voru kvödd með blómvöndum og þéttu lófataki ársfundarfulltrúa.
Kveðjustund. Ingibjörg Ólafsdóttir, Ólafur Sigurðsson og Jakob Tryggvason.
Ingibjörg Ólafsdóttir leit um öxl undir lok skýrslu stjórnar á ársfundinum:
Sameining Stafa og Sameinaða lífeyrissjóðsins stendur upp úr í minningunni. Hún var hvorki áreynslulaus né átakalaus en gekk ótrúlega vel fyrir sig og skilaði því sem til var ætlast; hagræðingu, markvissari starfsemi, betri þjónustu og minni rekstarkostnaði en hefði fylgt tveimur aðskildum sjóðum. Hin formlega sameining var eitt, hin raunverulega sameining annað. Þetta er að baki og Birta er í jafnvægi, öflugur lífeyrissjóður í fremstu röð.
Ég segi hér og undirstrika að starfsfólk Birtu er alveg framúrskarandi, með framkvæmdastjóra í fararbroddi sem hefur sjaldgæft lag á að hafa þannig áhrif á umhverfi sitt að öldur ná aldrei að rísa almennilega ef hvessir af einhverjum ástæðum og það jafnvel af skiljanlegum ástæðum.
Oft hef ég dáðst að því hve yfirgripsmikil og vönduð vinna sérfræðinga sjóðsins liggur að baki því sem fyrir okkur í stjórn Birtu er lagt af öllu mögulegu tilefni. Upplýsingarnar eru undantekningalaust fallnar til að stjórn geti tekið ákvarðanir á vel undirbyggðum og traustum forsendum. Utan stjórnarfunda hef ég oft leitað til starfsmanna og alltaf fengið strax skýr svör við spurningum og aldrei mætt öðru en liðlegheitum og þægilegu viðmóti sama hversu heimskulegt erindið var.
Og alltaf eru starfsmenn Birtu að hugsa næstu leiki fram í tímann. Þeir hætta bara aldrei að hugsa um hvað hægt sé að gera næst, gera góða þjónustu enn betri og hika ekki við að hugsa þá út fyrir boxið, eins og ég hef áður nefnt dæmi um.
Slíkur starfsmannaauður er ekki sjálfgefinn og ánægjulegt að sjá í ársskýrslu að nýjasta viðhorfskönnun Gallup sýnir að skrifstofubragur Birtu er í góðu lagi. Þetta vil ég nefna og segja að þið sjóðfélagar getið treyst því að við erum í mjög góðum málum með Birtu lífeyrissjóð!