Gerður G. Bjarklind er með eina þekktustu rödd landsmanna, ef ekki þá þekktustu. Guðni Th. forseti undirstrikaði stöðu hennar í samfélaginu með því að sæma hana fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag 2017. Það var fallega gert og verðskuldað.
Gerður er sérlega sannfært jólabarn og hefur alltaf verið. Það vita þeir best sem eru svo heppnir að eiga sinn sess á jólakortalistanum hennar og bíða spenntir eftir sendingunni Bjarklind með bréfberanum jól eftir jól.
Ekki er hægt að hugsa sér betri tíma en aðventu jóla til að sitja í stofu hjá Gerði og Sveini Aroni Bjarklind við Sléttuveg og ræða málin. Útsýnið er engu líkt og útilokað að stilla sig um að „gægjast oft út um gluggann“, eins og segir í textanum sem Jónas R. söng með Flowers forðum. Gerður stjórnaði Lögum unga fólksins og hlýtur að hafa þá spilað Flowers aftur og bak og áfram. Klukkutími á viku fyrir popp og rokk á einu rás Ríkisútvarpsins var skammtur dagsins í þann tíma og varð að duga mörgum kynslóðum af „léttmetistónlist“ eins og ráðamenn stofnunarinnar kölluðu hana á stundum.
Jólaannir hefjast hjá Gerði G. Bjarklind 10. október. Þá fer hún í prentsmiðju Guðjóns Ó til að velja pappír í jólakortin sín og hefur framleiðsluna við stofuborðið. Hún býr til um 100 kort og engin tvö eru eins.
„Nei, auðvitað ekki, heldur þú að ég fari að herma eftir sjálfri mér?“ spyr hún undrandi á móti. Henni finnst það liggja í augum uppi að þar á bæ sé ekki stunduð færibandaframleiðsla líkt og á verkstæði jólasveina í teiknaðri Disneymynd. Hún hefur nefnilega frumleikann fram yfir jólasveinana; teiknar, skrifar, klippir og límir, endurvinnur eldri kort og útfærir allt á sinn hátt.
Gerður er listræn og skapandi. Á veggjum, skápum og hillum eru málaðar myndir og ýmiss konar listmunir. Meira að segja aðventukransinn er úr gleri. Brunavarnakerfið í húsinu er svo næmt að það getur rokið í gang við sakleysislega loga á aðventukertum. Gerður sneri þá á örlögin með því að breyta greni og kertavaxi í glerlistaverk. Það kunna eldskynjarar vel að meta og steinþegja á jólaföstunni.
„Hún skrifar heilu ritgerðirnar í sum jólakortin og situr kannski heilt kvöld yfir einu korti,“ segir húsbóndinn á heimilinu. „Ég er alveg laus við þá þegnskyldu í okkar búskap að skrifa á jólakort en fer í staðinn með þau á pósthúsið.“
Sveinn er lærður loftskeytamaður og starfaði í loftskeytastöðinni í Gufunesi í ein 45 ár, síðast sem yfirsímritari hjá Pósti og síma. „Ég hætti 2002, enda fannst mér þá komið nóg.“
Gerður byrjaði feril sinn hjá Ríkisútvarpinu 1961, var fyrstu þrettán árin í auglýsingadeildinni, stjórnaði Lögum unga fólksins frá 1963 til 1971 en var lengst af þulur frá 1974 til 2012. Síðustu starfsárin var hún þulur í hlutastarfi en stjórnaði jafnframt Óskastundinni, þætti sem sló svo rækilega í gegn að út voru gefnar fjórar samnefndar safnplötur eða öllu heldur geisladiskar með lögum sem Gerður valdi.
Erindreki vefsins Lífeyrismál.is getur ekki verið þekktur fyrir annað en að spyrja viðmælendur sína á sjöttu hæð í Sléttuhlíðarblokk af skyldurækni: Hvernig er eftirlaunatilveran? Viljið þið tjá ykkur um lífeyrissjóðinn og lífeyrinn? Er ekki yfir einhverju að kvarta?
„Veistu, við höfum það bara alveg ágætt, þakka þér fyrir,“ svaraði Gerður að bragði. Í loftinu lá að þar með væri umræðuefnið tæmt áður en umræðan var í raun hafin.
„Við höfum yfir engu að kvarta. Skipti,“ hefði Sveinn væntanlega svarað með fjarskiptasambandi Gufunesradíós á sínum tíma. Nú er hann hins vegar í nærskiptasambandi heima í stofu.
„Mikilvægast er að sigla skuldlaus inn í eftirlaunaskeiðið. Það sem við eigum og fáum úr lífeyrissjóðnum dugar, enda lifum við skynsamlega.
Eftir áramótin hugsa Gerður og Sveinn sér til hreyfings. Þau fara yfirleitt til Spánar í janúar eða febrúar og dvelja fram yfir páska.
„Á þessum árstíma er lítið um að vera hér heima. Spánardvölin styttir veturinn og lengir vorið,“ segir Sveinn.
Hvers vegna ekki að dvelja allan veturinn ytra eða flytja jafnvel alveg til Spánar? Gerður á skýrt svar við því:
„Hvorugt kemur til greina. Jól á Spáni? Nei, það gengur ekki. Spánverjar þekkja hvorki jólaföstu né Þorláksmessu. Þeir halda heldur ekki almennileg jól! Páskarnir eru hins vegar hátíðin þeirra og þá er gaman að vera á Spáni.
Á sumrin viljum við vera á Íslandi, ekki síst til að dvelja í sumarbústaðnum okkar, Bjarkargerði, í Grímsnesi. Þar er paradísin okkar og reyndar er gott að vera þar líka að vetrarlagi. Við göngum mikið í Grímsnesinu og göngum líka mikið á Spáni.“
Gerður og Sveinn eru alltaf á sömu slóðum á Spáni. Þar er slæðingur af Íslendingum og öðrum Norðurlandabúum. Þjóðverjar voru áberandi áður en sjást vart lengur. Finnar eru hins vegar afar fjölmennir og en ekki yfirgengilega glaðbeittir. Konur prjóna þöglar og alvarlegar. Þeim stekkur vart bros á vör þegar Gerður býður góðan dag og hælir þeim fyrir hannyrðirnar.
Danir eru líflegir að vanda og hella ákavítisstaupin sín svo full að neytendur eru nauðbeygðir að halla sér yfir þau og súpa yfirborð vökvans vel niður fyrir brún. Fari dropi til spillis telst það matarsóun og ámælisverð sem slík.
Ef að líkur lætur myndu Danir kunna betur en Finnar að meta jólakort frá Gerði G. Bjarklind.
Sú ályktun er reyndar byggð á líkindareikningi fremur en mannfræði, án ábyrgðar og utan þjónustusvæðis íslenska lífeyrissjóðakerfisins.