02. maí 2018
Jakob Tryggvason nýr stjórnarformaður Birtu
self.header_image.title

Jakob Tryggvason nýr stjórnarformaður Birtu

Jakob Tryggvasvon, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði og sviðsstjóri miðlunar- og tæknigreina í Rafiðnaðarskólanum, er nýr stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs. Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótel Sögu, er nýr varaformaður. 

Átta manna stjórn var kjörin á ársfundi Birtu í dag en tíu manns voru í fráfarandi stjórn. Ákveðið var við sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs 2016 að kjósa tíu fulltrúa í fyrstu stjórnir Birtu en fækka þeim í átta á ársfundi 2018. Það gekk eftir nú.

Í aðalstjórn sitja Gylfi Ingvarsson, Jakob Tryggvason, Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir og Hrönn Jónsdóttir fyrir launamenn. Gylfi og Jakob voru í fráfarandi stjórn. Guðrún Elfa er framreiðslumeistari og starfar sem forstöðumaður veitingasviðs Center Hotels. Hrönn er margmiðlunarhönnuður og starfar hjá Marel.

Stjórnarmenn tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins eru Davíð Hafsteinsson, Guðrún Jónsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir og Pálmar Óli Magnússon. Sá síðastnefndi er nýr í stjórn og starfar sem forstjóri Samskipa.

Varamenn nýrrar stjórnar eru Bára Halldórsdóttir og Einar Hafsteinsson fyrir launamenn og Bolli Árnason og Guðbjörg Guðmundsdóttir fyrir atvinnurekendur.

Hrunið gleymist aldrei 

Jón Bjarni Gunnarsson formaður, Þorbjörn Guðmundsson varaformaður, Drífa Sigurðardóttir, Unnur María Rafnsdóttir og Viðar Örn Traustason sátu í fráfarandi aðalstjórn og voru kvödd með blómum.

Þorbjörn flutti ársfundinum kveðjuávarp og sagði að þegar hann horfði um öxl eftir margra ára starf á vettvangi lífeyrissjóðakerfisins staldraði hann óhjákvæmilega alltaf við efnahagshrunið og þær gríðarlegu áskoranir og erfiðleika sem blöstu þá við forystufólki lífeyrissjóðanna. Þar greiddist betur úr fleiri hnútnum en margir þorðu að vona. „Ekkert okkar sem upplifði hrunið gleymir þeim tímum,“ sagði Þorbjörn.

 Góð afkoma sjóðsins

Jón Bjarni Gunnarsson formaður fjallaði um afkomu sjóðsins í skýrslu stjórnar og sagði þar meðal annars:

„Ánægjulegt er að fá það staðfest í uppgjöri ársins 2017 að afkoma Birtu var góð. Hrein eign til greiðslu lífeyris var tæplega 350 milljarðar króna í lok ársins og hrein raunávöxtun eigna samtryggingardeildar var 5,23%. Þetta er í samræmi við markmið okkar 2017 eftir slakt ár 2016. Árangur Birtu er fyllilega samanburðarhæfur við aðra lífeyrissjóði.

Ég hefði auðvitað kosið að sjá hagstæðara mat á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins um síðustu áramót. Heildarskuldbindingar í lok árs 2017 voru 3,44% umfram eignir en 4,09% umfram eignir í lok árs 2016. Það ár var ávöxtun eigna sjóðsins slök.“

Orðin tóm duga ekki gegn ofurlaunastefnunni

Fráfarandi stjórnarformaður vék sömuleiðis að svokölluðum ofurlaunum í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðir eiga hluti í og það stundum stóra eignarhluti:

„Nú er það svo að menn hafa misjafnar meiningar um hvað teljist „hófleg“ laun og starfskjör forstjóra og æðstu stjórnenda, sérstaklega þegar forstjórarnir sjálfir tjá sig og benda á svipuð eða jafnvel mun hærri laun kollega sinna í öðrum félögum hérlendis eða erlendis.

Ég get hins vegar sagt skýrt að það vefst ekki fyrir stjórn Birtu lífeyrissjóðs að telja 5-6 milljónir króna á mánuði óhófslaun, hvað þá enn hærri upphæðir. Við höfum komið þeim sjónarmiðum okkar á framfæri við stjórnir og aðra hluthafa í félögum sem við eigum í.

Annað mál er svo hvort á okkur er hlustað eða öllu heldur hvort eitthvað er gert með aðfinnslu okkar. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, sagði á fundi fulltrúaráðs launamanna sjóðsins að „kurteislegar ábendingar“ í þessum efnum skiluðu engu og að við yrðum að leita annarra leiða til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri þannig að mark yrði á þeim tekið. Ég er sammála áliti framkvæmdastjórans. 

Hvað er þá til ráða? Ég sé enga aðra leið vænlegri en þá að Birta lífeyrissjóður reyni að hafa meiri áhrif í stjórnarkjöri félaga. Við eigum að styðja til stjórnarsetu fólk sem hefur tileinkað sér hugmyndafræði í eigendastefnu lífeyrissjóðsins okkar, fólk sem ber skynbragð á hófsemi í starfskjörum æðstu stjórnenda og beitir sér hiklaust gegn því að launamálin í efsta stjórnendalagi félaga fari út böndum.

Ofurlaun í fyrirtækjum sem Birta lífeyrissjóður á hluti í samræmast hvorki hagsmunum sjóðsins né lífeyrissjóðakerfisins yfirleitt. Þess vegna eigum við að ganga eftir því að stjórnarmenn, sem tileinka sér boðskap eigendastefnu okkar og njóta stuðnings lífeyrissjóðsins, beiti sér fyrir því að sjónarmið okkar fái hljómgrunn í stjórnum félaganna.“

 

Nýkjörin stjórn Birtu lífeyrissjóðs. Frá vinstri: Ingibjörg Ólafsdóttir, Pálmar Óli Magnússon, Gylfi Ingvarsson, Guðrún Elva Hjörleifsdóttir,, Guðrún Jónsdóttir, Hrönn Jónsdóttir,  Jakob Tryggvason og Davíð Hafsteinsson.

Nýja stjórnin í anddyri Hörpu í kvöld. Frá vinstri: Ingibjörg Ólafsdóttir varaformaður, Pálmar Óli Magnússon, Gylfi Ingvarsson, Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Hrönn Jónsdóttir, Jakob Tryggason formaður og Davíð Hafsteinsson.

Horft yfir Norðurljósasal Hörpu á ársfundinum.

 Ársfundurinn í Norðurljósasal Hörpu.

IMG_2921.jpg

 

Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur fjallaði um tryggingafræðilega stöðu Birtu.

Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur fjallaði um tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.

Jón Bjarni Gunnarsson flytur skýrslu stjórnar.

Jón Bjarni Gunnarsson formaður flutti skýrslu stjórnar. Næst honum við háborðið eru Finnbjörn A. Hermannsson fundarstjóri, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, og Þorbjörn Guðmundsson, varaformaður stjórnar.

Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringarsviðs Birtu, fjallaði um fjárfestingarstefnuna.

Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringarsviðs Birtu, fjallaði um fjárfestingastefnu sjóðsins.

Fráfarandi stjórnarmenn fengu blóm að skilnaði. Frá vinstri Þórbjörn Guðmundsson, Jón Bjarni Gunnarsson og Drífa Sigurðardóttir. Unnur María Rafnsdóttir og Viðar Örn Traustason voru líka í stjórninni sem skilaði umboði sínu á ársfundinum.

Þrír af fimm fráfarandi aðalstjórnarmönnum Birtu voru á vettvangi í fundarlok, leystir út með blómum: Þorbjörn Guðmundsson, Jón Bjarni Gunnarsson og Drífa Sigurðardóttir. Fjarverandi voru Unnur María Rafnsdóttir og Viðar Örn Traustason.

Brosmildir í fundarlok: Bjarni Guðmundsson, Arnar Sigurmundsson, Hannes G. Sigurðsson og Þorbjörn Guðmundsson.

Brosmildir kappar í lok ársfundar: Bjarni Guðmundsson, Arnar Sigurmundsson, Hannes G. Sigurðsson og Þorbjörn Guðmundsson.