01. október 2021
Neytendastofa birtir ákvörðun í vaxtamáli Birtu
self.header_image.title

Í nóvember í fyrra tók stjórn sjóðsins ákvörðun um að hækka vaxtaálag á óverðtryggðum lánum úr 1,1% í 2,1% og var breytingin tilkynnt með bréfi til skuldara og tók gildi um áramót. Einnig var birt á vefsíðu sjóðsins tilkynning um vaxtabreytinguna sem olli misskilningi um forsendur hennar og leiddi til þess að kvörtun var send til Neytendastofu. Neytendastofa hefur frá þeim tíma haft ákvörðun sjóðsins og hvernig staðið var að tilkynningu um hækkun vaxtaálagsins til skoðunar.

Vaxtabreytingin lögmæt

Ákvörðun Neytendastofu hefur nú verið birt og er niðurstaðan í hnotskurn sú að stjórn sjóðsins hafi verið heimilt að breyta vaxtaálagi óverðtryggðra lána. Þá heimild hafi stjórnin réttilega sótt í 3. tl. skilmála bréfanna sem kveða meðal annars á um að heimilt sé að endurskoða vaxtaálag með hliðsjón af markaðsvöxtum sambærilegra lána. Þegar ákvörðunin var tekin voru vaxtakjör Birtu töluvert undir vaxtakjörum annarra lánastofnana og voru raunar enn eftir að nýtt vaxtaálag tók gildi. Var það mat Neytendastofu að vaxtabreytingin hafi verið lögmæt og rétt hafi verið að henni staðið.

Framanvitnuð tilkynning sem birt var á heimasíðu Birtu 27. nóvember sl. var hins vegar af Neytendastofu talin hafa verið misvísandi og röng. Þar var ranglega tilgreint að ákvörðunin hafi einnig byggt á þeirri staðreynd að eignarflokkurinn hafi sýnt neikvæða raunávöxtun. Þótt sú staðreynd hafi verið sönn, er rangt að hún hafi verið grundvöllur vaxtahækkunarinnar. Sjóðurinn gekkst við þessum mistökum um leið og á þau var bent og hefur tilkynningin nú verið uppfærð og leiðrétt. Birta harmar mistökin og biður þá lántakendur sem tilkynningin beindist að einlæglegrar afsökunar.

Stjórn sjóðsins hefur fundað um niðurstöðu Neytendastofu og mun gera viðeigandi ráðstafanir svo mistök sem þessi endurtaki sig ekki.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær opnað verður að nýju fyrir umsóknir um óverðtryggð lán en lokað hefur verið fyrir nýjar umsóknir um óverðtryggð lán síðan í ágústlok 2020.