22. febrúar 2019
Rafrænt greiðslumat Birtu er draumadæmi
self.header_image.title

Svavar Jón Bjarnason og Harpa Sævarsdóttir endurfjármögnuðu húsnæðislán með sjóðfélagaláni hjá Birtu lífeyrissjóði seint á árinu 2018. Þau notuðu reiknivélar á vefnum birta.is til að glöggva sig á kjörum og greiðslubyrði og sóttu svo um lán.

„Satt best að segja kveið ég fyrir því að eyða hálfum eða heilum vinnudegi í að klára pappírsvinnuna sem ég taldi frá fyrri tíð að biði mín. Svo benti Íris Anna Skúladóttir, starfsmaður Birtu, mér á rafrænu leiðina þar sem ég gat sjálfur aflað upplýsinga og beðið um bráðabirgðagreiðslumat. Niðurstaðan lá fyrir á augabragði og Harpa gat samþykkt rafrænt fyrir sitt leyti, þá stödd erlendis. Við þurftum einungis að líta inn hjá Birtu til að undirrita pappíra vegna þinglýsingar. Þvílíkur munur!“ segir Svavar Jón.

Svavar jón

Birta er fyrsti lífeyrissjóðurinn sem tekur í gagnið rafrænt greiðslumat með sjálfsafgreiðslusniði í samstarfi við Creditinfo. Þessi þjónusta er sjóðfélögum til mikils hagræðis og þæginda og sparar þeim umstang og tíma. Það er nánast galdur fólginn í því að geta sjálfur á einfaldan hátt aflað upplýsinga vegna greiðslumats og fá bráðabirgðamat á fáeinum sekúndum upp á tölvuskjáinn heima hjá sér eða á vinnustaðnum.

Ekki nóg með það. Birta gerir lánsumsækjendum mögulegt að undirrita skjöl á Netinu heima hjá sér og losna þannig við að koma á skrifstofu sjóðsins, nema til að undirrita skuldabréf í lokin. Vel að merkja, séu lántakendur að kaupa fasteign geta þeir fengið skuldabréf frá Birtu sent til viðkomandi fasteignasölu, sem sér þá um undirskriftir og þinglýsingu. Viðkomandi þurfa þá sjálfir að útvega votta að undirskriftum og ábyrgjast þannig nauðsynleg formsatriði í lokin.

Nýjungarnar í lánasýslu Birtu minnka kolefnisspor í starfseminni og lágmarka pappírsnotkun.