25. október 2016
Sameinaði og Stafir sameinast í Birtu lífeyrissjóði
self.header_image.title

Stjórn BirtuFjármálaráðuneytið hefur staðfest sameiningu sjóðanna að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins og mun Birta lífeyrissjóður taka formlega til starfa 1. desember nk. Aðsetur Birtu verður í Sundagörðum 2 í Reykjavík, þar sem Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefur verið til húsa. Með sameiningunni verður til fjórði stærsti lífeyrissjóður landsmanna með yfir 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign sem nemur um 310 milljörðum króna. 


Engar umtalsverðar hindranir 

Viðræður um sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs hófust í byrjun maí 2016. Þær gengu vel og engar umtalsverðar hindranir urðu í vegi, enda er uppbygging sjóðanna svipuð og bakland þeirra sömuleiðis. Sameiningin miðast við stöðu sjóðanna í byrjun árs 2016 en ávinnsla réttinda í nýja sjóðnum hefst 1. janúar 2017. Við ársuppgjör 2015 kom í ljós að meðalávöxtun beggja sjóða síðastliðin fimm ár var nákvæmlega sú sama eða 6%. Ávöxtun eigna fyrstu sex mánuði ársins 2016 var nánast sú sama líka, þar munaði 0,1%. 

Sameinaði lífeyrissjóðurinn

Sameinaði lífeyrissjóðurinn varð til í ársbyrjun 1992 með sameiningu Lífeyrissjóðs byggingarmanna og Lífeyrissjóðs málm- og skipasmiða. Síðar bættust við lífeyrissjóðir bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara, verkstjóra og fleiri. 

Stafir lífeyrissjóður

Stafir lífeyrissjóður varð til við samruna Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Lífiðnar í ársbyrjun 2007. Til Stafa greiða starfsmenn fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.