09. júní 2020
Sjö í framboði um eitt stjórnarsæti launamanna í Birtu
self.header_image.title

Jón Kjartan Kristinsson var kjörinn í stjórn Birtu lífeyrissjóðs á fulltrúaráðsfundi launamanna í gær. Hann sest í stjórn í stað Jakobs Tryggvasonar, formanns Félags tæknifólks í rafiðnaði, sem verið hefur í stjórnum Stafa lífeyrissjóðs og síðar Birtu í átta ár. Það er hámarkstími samfleyttrar stjórnarsetu samkvæmt samþykktum sjóðsins.

Átta buðu sig fram í aðalstjórn Birtu á kjörfundi fulltrúaráðs launamanna. Jón Kjartan hlaut 45 atkvæði af alls 70, Andri Reyr Haraldsson rafvirki hlaut 17 atkvæði en aðrir frambjóðendur færri atkvæði.

Jón Kjartan er verkefnisstjóri hjá Rafmennt, fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins. Hann er lærður rafeindavirki, fór síðar í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með próf í viðskiptafræði. Í framhaldinu lauk hann meistaraprófi í viðskiptafræði frá Copenhagen Business School.

Hrönn Jónsdóttir var sjálfkjörin í stjórn Birtu af hálfu launamanna og Bára Laxdal Halldórsdóttir sjálfkjörin í varastjórn, báðar á reglu um lögbundin kynjahlutföll í stjórn. Þær sitja í núverandi stjórn og varastjórn sjóðsins.

Breytingar líka atvinnurekendamegin í stjórninni

Fulltrúaráð atvinnurekenda í Birtu lífeyrissjóði kom svo formlega saman í gær til að ræða málin í aðdraganda ársfundar sjóðsins á mánudaginn kemur, 15. júní. Samtök atvinnulífsins tilnefna fulltrúa atvinnurekenda í stjórnina og staðfestu að Þóra Eggertsdóttir kemur í stað Ingibjargar Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hótels Sögu ehf. Hún hverfur úr stjórn Birtu eftir átta ára samfelda setu.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, vakti á báðum fulltrúaráðsfundum sérstaka athygli á nýjum ársfundarvef sjóðsins þar sem Birta fer nýjar leiðir og gengur lengra í upplýsingamiðlun um sig og starfsemi sína en nokkur annar lífeyrissjóður hefur áður gert hérlendis. Framtakið mælist vel fyrir og eru sjóðfélagar hvattir til að kynna sér efni ársskýrslunnar.

Frá kjörfundi2020