Sjá nánar >
04. október 2018
Umgjörð áhættustýringar hjá Birtu lífeyrissjóði almennt í góðu horfi
self.header_image.title

Umgjörð áhættustýringar hjá Birtu lífeyrissjóði er að meginstefnu í samræmi við þær kröfur sem lög og reglur mæla fyrir um. Það er niðurstaða athugunar FME á umgjörð áhættustýringar Birtu lífeyrissjóðs sem hófst í febrúar 2018, en niðurstöður hennar voru birtar á vef FME í 2. október sl. Markmið athugunarinnar var að athuga hvort umgjörð áhættustýringar hjá sjóðnum og öðrum lífeyrissjóðum væri í samræmi við þær kröfur sem lög og reglur kveða á um. Í athuguninni var farið yfir áhættustefnu og áhættustýringarstefnu sjóðsins og kannað hvernig þær samræmast þeim kröfum sem settar eru fram í lögum og reglugerðum. Þá var jafnframt farið yfir skráða ferla og verklagsreglur sem sjóðurinn styðst við varðandi framangreint.

Eina athugasemd FME er að í núverandi áhættustefnu sé áhættuþol sjóðsins, sem og mörk um áhættuvilja stjórnar, ekki sett fram á mælanlegan hátt þar sem við á með fullnægjandi hætti eftir áhættuþáttum. Sambærileg athugasemd kom fram við áhættustefnur annarra lífeyrissjóða sem FME hefur haft til skoðunar síðustu mánuði.