01. desember 2023
Vel heppnaðir kynningarfundir fyrir sjóðfélaga
self.header_image.title

Mikil aðsókn var á kynningarfund Birtu sem haldinn var þriðjudaginn 28. nóvember og komust færri að en vildu. Því var tekin ákvörðun um að bæta við fundi sem haldinn var í gær, fimmtudag.

Á fundinum fór Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri yfir helstu atriði sem sjóðfélagar þurfa að hafa í huga áður en farið er á eftirlaun. Meðal þess sem fjallað var um á fundinum var hvar best er fyrir sjóðfélaga að finna upplýsingar um réttindi sín í sjóðnum, hvenær hefja má töku lífeyris, hvernig hægt er að skoða og gera áætlun um útgreiðslu á lífeyri, séreign og tilgreindri séreign með lífeyrisreiknivél sem finna má á heimasíðu sjóðsins.

Ólafur lagði áherslu á mikilvægi þess að einstaklingar kynni sér vel réttindi sín og hvaða leið hentar hverjum og einum enda er það einstaklingsbundið hvaða leið er best að fara. Hann benti gestum fundarins á að fara inn á nýjan og endurgerðan sjóðfélagavef Birtu til að finna upplýsingar um réttindi sín og skoða sjóðfélagayfirlitin.

Starfsfólk lífeyrisdeildar og þjónustufulltrúar Birtu voru einnig á staðnum til að útskýra og taka við spurningum.

Fundurinn var frábær vettvangur fyrir sjóðfélaga til að spyrja spurninga og fá svör hjá starfsfólki Birtu um lífeyrismál, réttindi og hvernig best er að undirbúa sig fyrir starfslok.