17. apríl 2019
Verulega minni rekstrarkostnaður, viðunandi ávöxtun
self.header_image.title

Rekstrarkostnaður Birtu lífeyrissjóðs dróst saman um 9,7% á árinu 2018 frá fyrra ári, á föstu verðlagi. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum lækkaði úr 0,22% í 0,19%.

Þetta kom fram á ársfundi sjóðsins fyrir páska. Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri lét þess getið að settum markmiðum um sparnað í rekstri sjóðsins hafi verið náð með aðhaldi á öllum sviðum, án þess að skerða rekstraröryggi sjóðsins á nokkurn hátt.

Laun og launatengd gjöld Birtu jukust um 1,1% frá fyrra ári.

Áfram er haldið á sömu braut. Gert er ráð fyrir að spara enn frekar með grænu bókhaldi til að auka kostnaðar- og umhverfisvitund starfsfólks og með stafrænni tækni í starfseminni en gera jafnframt góða þjónustu enn betri.

Ársfundur 2019

Nafnávöxtun eigna samtryggingardeildar Birtu var 5,04% á árinu 2018 og hrein raunávöxtun 1,74%. Þessi afkoma er ögn undir væntingum en telst viðunandi. Það stefndi í það langt fram eftir ári að hrein raunávöxtun yrði 4-5%. Aðstæður á erlendum mörkuðum snarversnuðu hins vegar í desember og gengi íslenskrar krónu styrktist á sama tíma, með þeim afleiðingum að ársmeðaltal ávöxtunar snarlækkaði. Ástandið færðist svo í fyrra horfs fljótlega á nýju ári.

Hrein raunávöxtun Birtu 10 undanfarin ár er 3,3% eða með öðrum orðum rétt undir 3,5% ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóða.

Hreinar fjárfestingartekjur Birtu voru 18,5 milljarðar króna, þar af 14,5 milljarðar króna af skuldabréfum.

Alls greiddu um 16.200 manns iðgjöld til Birtu á árinu 2018, alls 17,5 milljarða króna. Sjóðfélögum fjölgar að jafnaði um 2,5% á ári.

Sjóðurinn greiddi 13.800 sjóðfélögum liðlega 10,5 milljarða króna í lífeyri úr samtryggingardeild á árinu 2018, 9,4% meira en 2017.