28.05.2019

Við upphaf eftirlauna – vel heppnaður kynningarfundur

Fróðlegur kynningarfundur var haldinn 27. maí fyrir þá sjóðfélaga sem nálgast töku lífeyris. Fundurinn var fjölmennur og líflegur. Starfsfólk lífeyrisdeildarinnar kynntu helstu lífeyrisréttindi almennt og hvað helst ber að hafa í huga þegar ákveða á að hefja töku lífeyris.

Kynningarfundur maí 2019

Sigþrúður Jónasdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs fór yfir helstu atriði sem sjóðfélagar þurfa að hafa í huga áður en farið er á eftirlaun. Meðal þess sem hún fjallaði um var hvenær hefja má töku lífeyris, hvernig sækja á um eftirlaun, hvar best er að leita af upplýsingum um lífeyrisréttindi og hvernig greiðslur frá lífeyrissjóðum geta haft áhrif á réttindi almannatrygginga.

Sigþrúður lagði áherslu á mikilvægi þess að einstaklingar kynni sér vel réttindi sín og hvaða leið hentar hverjum og einum enda er það mjög einstaklingsbundið hvaða leið er best að fara. Hún benti gestum fundarins á að fara inn á sjóðfélagavef Birtu á heimasíðunni því þar er að finna allar upplýsingar um réttindi einstaklingsins á einum stað. Þjónustufulltrúar Birtu aðstoða líka við að útskýra réttindin og hjálpa til við umsóknarferlið ef þess þarf.

Fundurinn var frábær vettvangur fyrir sjóðfélaga til að spyrja spurninga og fá svör hjá starfsfólki Birtu á þessum tímamótum.