07. ágúst 2019
Hljóðmaður á stóra sviðinu
self.header_image.title

Hann fór að skipta sér af launamálum tæknifólks í Borgarleikhúsinu í upphafi aldarinnar, hljóðmaðurinn sem annars vann að tjaldabaki í öllum leiksýningum. Fljótlega steig hann á stóra sviðið í verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðakerfinu og hefur ekki vikið þaðan. Jakob Tryggvason er formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði og virkur í starfi Rafiðnaðarsambands Íslands, varaformaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða.

Jakob Tryggva

„Þetta byrjaði allt saman í Borgarleikhúsinu þar sem ég var verktaki í fyrstu en síðan fastráðinn yfirmaður hljóð- og tölvumála. Þegar kjarasamningar tæknifólks leikhússins runnu út árið 2003 og treglega gekk að koma á nýjum samningum var mér teflt fram í viðræðum um endurnýjun þeirra. Síðar réði ég mig sem ráðgjafa fyrirtækisins Exton vegna mynd- og hljóðkerfa á tónleikum, ráðstefnum, fundum og við útsendingar ljósvakamiðla.
Svo fór að árið 2007 var ég kjörinn formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði, næststærsta félagsins innan Rafiðnaðarsambandsins á eftir Félagi íslenskra rafvirkja, og þar er ég enn formaður. Virkasta liðið í félaginu hefur löngum verið baktjaldastarfsmenn leikhúsa og sjónvarpsstöðva en þegar alls kyns tæknigreinar tóku að blómstra fjölgaði félagsmönnum svo mikið og ört að líkja má við sprengingu. Og enn fjölgar okkur. Til að mynda færist kjaramálahluti kvikmyndagerðarfólks brátt til okkar og ákveðið er að við sameinumst Félagi sýningarfólks í kvikmyndahúsum í október.“

– Urðu afskipti af lífeyrissjóðum sjálfkrafa hluti af tilveru formanns Félags tæknifólks í rafiðnaði?

„Raunar ekki. Ég hafði áhuga á lífeyrismálum og ákvað að sækja fræðslunámskeið þar að lútandi, fyrst í Háskólanum í Reykjavík og síðar hjá Félagsmálaskóla alþýðu. Í framhaldinu fór ég að skipta mér meira af lífeyrissjóðamálum og var kjörinn í stjórn Stafa lífeyrissjóðs af hálfu launamanna árið 2011. Þar gegndi ég síðar varaformennsku og formennsku. Eitt leiddi af öðru á tiltölulega skömmum tíma.
Svo er minn tími allt í einu senn á enda! Á næsta ári reynir nefnilega á ákvæði í samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um að aðalmaður í stjórn lífeyrissjóðs geti ekki setið samfellt lengur en í átta ár.“

Vann að því að stofna Birtu og er stoltur af sjóðnum

– Þú hefur setið í stjórn Birtu lífeyrissjóðs frá upphafi, ert núna varaformaður stjórnar en varst áður formaður. Var sameining Stafa lífeyrissjóðs og Sameinaða lífeyrissjóðsins jafnvel lukkuð og þið vonuðust eftir sem að henni unnuð á sínum tíma?

Ársfundur 2019

„Já, ég ætla að ganga svo langt að segja að svo vel tókst til að reynslan af sameiningunni fer fram úr björtustu vonum og ég er afar stoltur af því að hafa komið að því að stofna Birtu. Rekstrarkostnaður sjóðsins hefur lækkað en þjónustan aukist á sama tíma. Birta er líka á margan hátt frumkvöðull á sínu sviði, til dæmis varðandi rafræna afgreiðslu lífeyrissjóðslána.
Birta hefur sömuleiðis markað sér sérstöðu meðal lífeyrissjóða með „grænum skrefum“ í starfsemi sinni. Það birtist í grænu bókhaldi, umhverfisvænum rekstri í smáu og stóru og ákvörðun um að kolefnisjafna starfsemi sjóðsins sjálfs, stjórnarmanna og starfsfólks. Við sömdum í fyrra við Skógræktina um gróðursetningu í Haukadal til að græða landið en draga um leið úr koldíoxíði í andrúmslofti.
Þá nefni ég að Birta fékk á dögunum löggilta vottun á jafnlaunakerfi sitt, fyrst lífeyrissjóða á Íslandi.
Síðast en ekki síst vísa ég til öflugs og afar mikilvægs starfs fulltrúaráðs Birtu sem dafnar vel og þróast.“

Veltir mikið fyrir sér samfélagslegu hlutverki lífeyrissjóða

– Margir sjóðfélagar á ársfundi Birtu 2019 sperrtu eyru og og urðu ögn undrandi þegar þeir heyrðu þig í skýrslu stjórnar bjóðast fyrir hönd lífeyrissjóðsins til að fjármagna nýbyggingu Tækniskólans. Hvað bjó að baki slíkri yfirlýsingu?

„Tækniskólinn menntar fjölda fólks í baklandi Birtu lífeyrissjóðs en býr við óviðunandi aðstæður í húsnæðismálum. Við treystum okkur vel til að semja um að lána til slíkrar framkvæmdar ef semst um kjör sem bæði sjóðurinn og eigendur skólans geta unað við. Birta er með öðrum orðum stöndugur lífeyrissjóður og getur sinnt stórum samfélagsverkefnum einn og sjálfur. Svo einfalt er nú það!
Fleiri stór verkefni mætti nefna þar sem lífeyrissjóðir geta komið að málum sem fjárfestar og ættu að gera það. Ég nefni samgöngumannvirki af ýmsum toga, frárennsliskerfi sveitarfélaga og fleira.
Hins vegar er aðkallandi að horfa á stóru myndina frekar en einstök og tilfallandi verkefni. Ég velti meira og meira fyrir mér hvert samfélagslegt hlutverk lífeyrissjóða skuli vera í víðara samhengi, bæði markmiðin og leiðir að þeim.
Í sameiningarvinnunni sem leiddi til stofnunar Birtu kynntist ég því hve mikilvægt það er lífeyrissjóðum að vera í góðum tengslum við baklandið og hyggja vel að samfélagslega hlutverkinu, sem getur líka tengst tilteknum verkefnum. Síku samtali við baklandið þarf Birta að viðhalda og auka það. Sama á við um allt lífeyrissjóðakerfið.“

Lífeyrissjóðaforystan á ekki að horfa þegjandi á skerðingar í almannatryggingakerfinu

– Athygli vakti á ársfundi Birtu að þú talaðir um „hrikalega skerðingu lífeyris almannatrygginga“ sem yrði að linna og tókst býsna stórt upp í þig um mál sem varðar lífeyrissjóði ekki beint eða hvað?

„Lífeyrisskerðing ríkisins í almannatryggingakerfinu kemur okkur í lífeyrissjóðunum heldur betur við. Hún rýrir kjör þúsunda sjóðfélaga og stórskaðar raunar ímynd sjálfs lífeyrissjóðakerfisins.
Skerðing lífeyris er ekki náttúrulögmál heldur pólitísk ákvörðun sem hefur orðið til þess að fleiri og fleiri spyrja sig í hljóði eða upphátt: Hvers vegna borgum við yfirleitt í lífeyrissjóði þegar ríkið refsar okkur með því að hirða af okkur lífeyri Tryggingarstofnunar?
Við í forystu lífeyrissjóða getum auðvitað ekki horft þegjandi á þennan gjörning sem grefur beinlínis undan góðu kerfi sem við störfum í og stýrum.
Það skipti miklu máli þegar framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og síðar formaður samtakanna líka fóru að tala skýrt gegn lífeyrisskerðingunni á opinberum vettvangi. Eftir því var vel tekið í samfélaginu og sjóðfélagar fengu staðfest að þarna áttu þeir sér málsvara og samherja.
Þetta er dæmi um það sem ég kalla mikilvægt samtal lífeyrissjóða við bakland sitt.“